0645
Rannsóknir
Afkomuógn
Marilyn Greenwald & Joseph Bernt
The Big Chill
2000
Árin 1992-1993 samþykktu þrettán ríki í Bandaríkjunum lög um, að fjölmiðlum væri óheimilt að tala illa um fæðutegundir, segja þær vera óhollar, skemmdar o.s.frv. Þar með giltu meiðyrði ekki bara um persónur, heldur líka um matvöru.
Þessi staða er slæm. Greg Bates: Annað hvort er prentfrelsi í þessu landi eða ekki. Við sjáum, að Cincinnati Enquirer borgaði stórfé til Chiquita vegna réttrar fréttar um framferði þess, af því að blaðið hafði náð í afritanir símtala.
Sótt er að prentfrelsi út um allar trissur með nýstárlegum lagatúlkunum. Þetta þýðir aukinn kostnað við málaferli. Í Bandaríkjunum úrskurða kviðdómar í 70% tilvika gegn fjölmiðlum. Og áfrýjanir til æðri dómstóla kosta æ meiri peninga.
Wall Street Journal var dæmt árið 1998 til að greiða yfir 220 milljónir dollara fyrir frétt, sem fól í sér, að fyrirtæki í öryggisgæslu hefði mjólkað viðskiptavin. Slíkar upphæðir fela í sér refsiþyngjandi sjónarmið. Farið er að bera á slíku hér, t.d. Bubbi.
Til þess að standa undir 220 milljón dollara sektargreiðslu þarf blað á borð við Wall Street Journal að greiða 287 þúsund dollara mánaðarlega af tryggingu. Hætt er við, að tryggingafélög vilji með sama framhaldi hafa afskipti af efni blaða.
Rannsókn bendir til, að hætt hafi verið við birtingu frétta, ekki vegna þess að neitt væri rangt í þeim, heldur af ótta við málaferli. Þannig geta sjónarmið dómstóla og tryggingafélaga haft skaðleg áhrif á innihald fjölmiðla.
Þetta kemur líka niður á blaðamönnum. Þeim, sem unnu fyrir North County Times við San Diego, var neitað um heimilistryggingu af því að þeir væru í svo áhættusömu starfi gagnvart skaðabótakröfum. Blaðamenn taka auðvitað eftir slíku.
Eddith Dashiell: Rannsóknablaðamennska snýst ekki mikið um áhugamál minnihlutahópa, konur, homma og lesbíur, svertingja. Blaðamenn í meginstraumi fjölmiðlunar halda sig nærri landi, þegar kemur að slíkum málum, í stað þess að hætta sér á ólgusjó.
Marc Edge: LAT: Til skamms tíma þótti mikilvægur veggurinn milli ríkis og kirkju, milli viðskiptadeilda og ritstjórna fjölmiðla. Nú hefur hann rofnað sums staðar og fréttir hafa borist um samspil aðila beggja vegna múrsins, t.d. um auglýsingar.
Mark Willes varð frægur af endemum, þegar hann varð útgáfustjóri Los Angeles Times og sagði múrnum stríð á hendur. Bradlee: “Sannleikur skiptir hann engu máli.” Bagdikian: “Enginn hefur eflt vantraust á fjölmiðlum eins mikið og hann.”
Willes vildi ekkert vita um siðferði á ritstjórn. Bestu starfsmenn blaðsins flúðu tugum saman til annarra fjölmiðla. En hann var ekki einn. Víðar var komið á samstarfi auglýsingadeilda og fréttamanna um auglýsingar í fréttum.
Í 57% tilvika eru til markaðsnefndir með aðild starfsmanna á ritstjórn. Víða voru blaðamenn hvattir til að gæta hagsmuna auglýsenda. Þessi þróun hófst upp úr 1980 og varð stríð upp úr 1990, þegar auglýsingatekjur dagblaða voru farnar að minnka.
“Advertorials”,kynningar og aðrar auglýsingar í ritstjórnartexta mynda heilu sérblöðin, til dæmis um fasteignir og bíla. Oft er alls ekki tekið fram, að texti utan auglýsinganna komi frá auglýsendum. Lesendur fá enga viðvörun um það.
Harðar fréttir skipa minna rúm í fjölmiðlum. Í staðinn koma linar og mildar fréttir, texti um tísku og mat og annað það, sem talið er kalla á auglýsingar. Auglýsendur heimta víða virðisauka í formi vinsamlegs texta í efni blaðanna.
Ósvífnin náði hámarki 1997, þegar Chrysler og fleiri fyrirtæki í kjölfarið fóru að heimta að fá að vita fyrirfram um efni blaða, á þeirri forsendu, að þeim væri ekki sama um, í hvaða umhverfi frétta auglýsing þeirra birtist.
Einkum hafa tímarit bognað fyrir þessu. Dagblöð fara varlegar í sakirnar. Þau eru nú komin í eigu keðja, sem eru reknar á sömu forsendum og stjórnunartækni er beitt í öðrum fyrirtækjum. Ritstjórinn er fluttur til forstjóranna.
Mark Willis kom á samstarfi milli yfirmanna á deildum ritstjórnar og tilsvarandi auglýsingamanna til að moka inn auglýsingum. Niðurlæging Los Angeles Times varð slík, að upp spruttu samkeppnisblöð í einstökum borgarhlutum.
Í augum margra lesenda er Los Angeles Times orðið að muzak í stórmarkaði, málpípu auglýsenda, fullt af texta í þágu auglýsenda, sem vafið er kringum sjálfar auglýsingarnar. Of snemmt er að spá um, hver verður framtíð blaðsins.
Þetta hefndi sín á Los Angeles Times. Sala blaðsins féll á fáum árum úr 1.2 milljón eintaka í 0,8 milljónir. Willes varð að hætta og blaðið var endurreist, en það náði aldrei að vinna traustið aftur.
Rannsóknablaðamennska á í erfiðleikum. Hún er sökuð um ofnotkun nafnlausra heimildamanna. Fréttastofnanir fara varlegar en áður, vilja forðast málaferli. Við þessar aðstæður kom tölvan eins og engill úr lausu lofti.
Mark Tatge: CAR er “Computer-Assisted-Reporting”. Blaðamenn nota tölvur til að afla heimilda og raða heimildum saman á áður óþekktan hátt. Í stað þess, að blaðamenn elti fólk heim til þess, sitja þeir við tölvur og tengja saman gagnabanka.
Sá, sem liggur í tölvunni, verður ekki sakaður um að veita fólki ónæði, nota nafnlausa heimildamenn eða gera annað það, sem fólki líkar ekki. Menn segja bara: Þetta var í tölvunni. Og vandamálin hverfa brott.
Marilyn Greenwald &
Joseph Bernt
The Big Chill
2000