0719 Markmið tímarita

0719

Ritstjórn
Markmið tímarita
Michael Robert Evans, The Layers of Magazine Editing, 2004

Jeff Castari, ritstjóri Men’s Health: Við höfum formúlu og höldum okkur við hana. Lesendur okkar vilja líkamsrækt, megrun, næringu, lyftingar, streitulosun, heilsu og karlaspeki. Við tryggjum, að hvert tölublað hafi eitthvað af þessu.

Scott Meyer, ritstjóri Organic Gardening: Við höfum verið málgagn félagslegra og læknisfræðilegra skoðana, handbók fyrir frístundabændur, pólitískt blað og lífsstílsblað. Einkum leiðbeinum við um ræktun án tilbúins áburðar og eiturs.

Fókus tímaritsins á ekki að breytast milli tölublaða. Þegar ritstjórinn eldist, fær hann ný áhugamál. Það getur haft slæm áhrif á ritstjórnina. Fókus tímaritsins fer að ramba. Tímaritið má yfirleitt ekki eldast með ritstjóranum.

Ed Holm, ritstjóri American History: Mikilvægasta hlutverk ritstjórans er að halda öllu í fókus, vinna með höfundum og starfsmönnum og hönnunarstjóra að samþættingu orða, mynda og hönnunar, sem sameinast þannig, að hvað styðji annað.

Ef þú getur ekki lýst fókusi tímarits í einni einfaldri yfirlýsingu, er ekki líklegt, að þar sé um að ræða uppáhaldstímarit þitt. Mörg tímarit hafa skriflega ritstjórnarstefnu í einni málsgrein. Það tryggir, að allir átti sig á fókusnum.

Sum tímarit ramma inn ritstjórnarstefnu sína og hengja hana upp, þar sem allir geta séð hana. Sum gefa hana út í handbók ritstjórnar. Sum birta hana. Hank Nuwer, ritstjóri Arts Indiana: Ég les ritstjórnarstefnuna fjórum sinnum í mánuði.

Cele G. Lalli, ritstjóri Modern Bride: Með skýrri ritstjórnarstefnu getum við haft fókusinn á því, sem lesendur vænta að finna í blaðinu. Við þekkjum markað okkar og fylgjumst með þróun hans. Við þekkjum hjónaband hvers tíma.

Flestar ritstjórnarstefnur eru stuttar, t.d.: “Lake Superior Magazine vill vera augu, eyru og rödd Lake Superior og fólksins þar. Með góðum skrifum, gröfum og myndum reynum við að koma lesendum á óvart, upplýsa þá og gleðja þá.”

Greg Cliburn, ritstjóri Outside: Outside er mánaðarrit um fólk, íþróttir og tómstundir, pólitík, listir, bókmenntir og tækjakost útilífs. Við viljum ná til fjallahjólamanna, bakpokamanna og hægindastóls-ferðamanna.

Cheryl England, ritstjóri Mac-Addict: Við erum opinská, alltaf endalaust hjálpsöm, með nákvæmum leiðbeiningum um, hvernig megi nota makka í sniðuga hluti. Við ráðum blaðamenn eftir makkaást þeirra ekki síður en eftir reynslu þeirra.

Jean LemMon, ritstjóri Better Homes and Gardens: “Stofnandinn þróaði fókusinn fyrir 73 árum. Allir ritstjórar hafa notað hann síðan. Hann er þéttur, þótt efnissviðið sé vítt. Sameiginlegi þráðurinn er: Heimili og fjölskylda.”

Matthew Carolan, ritstjóri National Review: “Hlutverk tímaritsins er að segja fréttir frá íhaldssömum sjónarhóli, sem í stuttu máli þýðir áhersla á takmörkun stjórnvalds, ábyrgð einstaklinga, frjálsa markaði og hefðbundin siðferðisgildi.”

Hugmyndir um efnisval tímarita koma m.a. frá greinahöfundum. Mikið berst inn af ónothæfu efni, sem er utan við fókus, óljóst, þreytt eða á annan hátt lélegt. En stundum sér greinahöfundur hugmynd, sem hentar nákvæmlega þessu tímariti.

Hugmyndir um efnisval tímarita koma líka frá samstarfsaðilum í atvinnulífinu. Mest af efni fréttatilkynninga er gagnslaust. En stundum má finna þar nýjar og áhugaverðar upplýsingar, sem nota má til að þróa gagnlegt efni í tímaritið.

Hugmyndir um efnisval tímarita koma líka frá ritstjórunum, sem fara út úr húsi og gera það, sem tímaritin fjalla um. Ritstjórar Organic Gardening rækta grænmeti. Þannig átta þeir sig á nýrri þróun og breyttri forgangsröð.

Góðir ritstjórar lesa samkeppnisritin. Ekki er gott, að áhugasvið tímarita skarist of mikið. Hvert tímarit þarf að bjóða eitthvað nýtt, sérstakt, einstætt. Þannig nær það sinni eigin holu í markaðskerfinu með því að fylgjast með hinum.

Peggy S. Person, ritstjóri Mature Outlook: “Við fylgjumst stöðugt með samkeppni. Reynum að átta okkur á því, sem greinir okkar efni frá efni annarra og leggja áherslu á það, svo að við verðum ekki eftirmynd annarra tímarita fyrir aldraða.”

Ef efnisflokkur hefur ítrekað birst í Cosmo, Glamour og Elle, munu ritstjórar Vogue hugsa sig um tvisvar áður en þeir fela höfundum sínum að fjalla um það. Stundum er nóg komið að sinni. Það getur hentað Vogue að fara í aðra átt.

Gerry Bishop, ritstjóri Ranger Rick: Við þjónum börnum ekki með að birta daprar greinar um minnkun regnskóga, fækkun tegunda og útfjólubláa geislun. Við skrifum um fegurð villtrar náttúru og umhverfisins og reynum að fá börn til að meta það.

Þreytt efni ekki notað hjá Arizona Highways: Rambandi ferðadagbækur, sem rekja sig frá morgni til kvölds. Hjá Florida Sportsman: Kappsiglingar, frásagnir og sögur af frægðarfólki. Hjá T’ai Chi: Mannlýsingar á hæfni og afrekum kennara.

Víða er teymisvinna á ritstjórn tímarita. Betur sjá augu en auga. Heilbrigður ágreiningur getur haldið neistanum við. En menn þurfa að gæta sín á valdabaráttu persónuleika og koma í veg fyrir, að flokkadrættir myndist.

Með því að lesa samkeppnina sérðu líka, hvað hún gerir illa. Þú tekur ekki bara eftir því, sem þú sérð, heldur líka eftir því, sem þú sérð ekki. Þú sérð, hvað öllum hefur yfirsést. Í gjánni milli greina finnur þú oft bestu hugmyndirnar.

Sjá nánar: Michael Robert Evans, The Layers of Magazine Editing, 2004