0720
Ritstjórn
Siðir tímarita
Michael Robert Evans, The Layers of Magazine Editing, 2004
Nýr blaðamaður:
1. Lærir stefnuna.
2. Finnur samstarfið.
3. Hlustar á ágreining.
4. Les gömul eintök.
5. Gefur sér tíma til að læra.
Starfsmenn ritstjórnar þurfa að kunna ritstjórnarstefnuna, í fyrsta lagi til að koma með efni, sem er í samræmi við hana. Annars lenda þeir í að þurfa að reyna að koma inn grein, sem hentar betur í annað tímarit.
Starfsmenn ritstjórnar þurfa í öðru lagi að kunna stefnuna til að hjálpa tímaritinu til að vaxa. Stefnan á ekki að frysta tímaritið, heldur á hún að tryggja, að fókusinn sé jafn og breytist aðeins hægt.
Meiðyrði eru ummæli, sem valda einhverjum álitshnekki. Sönnunarbyrði getur lent á höfundi. Hann kann að vera sakaður um illvilja eða gáleysi gagnvart sannleikanum. Greinar mega ekki vera ófullnægjandi eða ónákvæmar og alls ekki rangar.
Ritstjórar kanna vel nöfn í greinum. Eru þau rétt, má ruglast á þeim og öðru nafni? Sama gildir um aðrar staðreyndir, sérstaklega tölur. Prentmiðlar eru vanir að fást við slíkt, en meiri ónákvæmni er oft í vefritum.
Fjölmiðlar geta ekki ábyrgst, að enginn móðgist eða lendi í tilfinningaróti. Slíkt er bara afleiðing af því, að margt fólk býr á einni plánetu. Erlend lög gera ráð fyrir, að allir séu sæmilega brynjaðir gagnvart ágjöf. Hér á landi er áreiti hins vegar bannað.
Auðvelt er að greina milli löglegrar og ólöglegrar hegðunar blaðamanna. En erfitt er að greina milli siðlegrar og ósiðlegrar hegðunar þeirra. Erlendis er tekið gilt, að almannahagsmunir séu teknir fram yfir persónulega hagsmuni. En ekki hér á landi.
Ritstjóri tímarits þarf að velta fyrir sér, hvort efni sé meiðandi fyrir einhvern. Hann þarf að hafa tilfinningu fyrir leikreglum. Hann má ekki skapa tímaritinu orð fyrir illvilja. Auglýsendur mundu væntanlega flýja af hólmi.
Siðfræði snýst um að fá nauðsynlegar upplýsingar án þess að stíga á tærnar á fólki. Eða að fá nauðsynlegar upplýsingar og sýna jafnframt mannasiði. Gullna reglan: Gerðu öðrum það, sem þú vilt, að þeir geri þér.
Það er ekki siðfræðileg lausn á vanda að birta ekki, það er uppgjöf fyrir vanda. Eiga lesendur ekki rétt á að fá sannleikann? Betra er að segja allan sannleikann og láta einnig þá koma fram, sem hafa aðra sögu að segja.
Immanuel Kant: Það er rangt að ljúga. Vertu beinn. Það er rangt að þegja yfir ólöglegu eða ósiðlegu athæfi. Þú glatar trausti, ef þú segir ekki satt. Það er ekki hlutverk blaðamannsins að hylma yfir með fólki.
Önnur sjónarmið (félagslegur rétttrúnaður):
Einstaklingurinn: Hvað kemur sér best fyrir sem flesta.
Samfélagið: Hvað kemur sér best fyrir samfélagið.
Blaðamenn lenda stundum í flóknum aðstæðum, þar sem eru engin einföld svör. Nafnleysi eða dulnefni í texta er umdeild leið. Ennfremur að sigla undir fölsku flaggi. Taka við gjöfum. Borga fyrir viðtöl. Starf með löggunni.
Athugið að nafnleysi heimildarmanns gildir ekki gagnvart ritstjóra, sem þarf að vita, hver heimildarmaðurinn er. Nafnleysi dregur úr trausti. Er sagan svo mikilvæg, að verjandi sé að nota nafnlausan heimildarmann? Watergate og Washington Post?
Sigling undir fölsku flaggi hefur leitt til mikilvægra uppljóstrana. En helgar tilgangurinn meðalið? Þar sem markmið blaðamennsku er að segja sannleikann, er þá ekki rangt að dulbúa sig til að afla sannleikans?
Greiðsla fyrir viðtöl er umdeild. Allir fá borgað nema viðmælandinn, á hann að tala ókeypis? Gallinn við greiðslur er, að þær hafa áhrif á, hvað viðmælandinn segir, hann segir nógu mikið til að viðtalið sé nógu spennandi og verði birt.
Ef þú talar við lögbrjót til að fá hans hlið á máli, ertu þá skyldugur að segja til hans? Af hverju gat lögreglan ekki fundið hann, úr því að þú gast fundið hann? Í Bandaríkjunum vernda blaðamenn viðmælendur sína. Spurning um traust.
Ef ritstjóri er ekki á vaktinni, læðist gáleysi inn í tímaritið. Það gætir sín ekki á félagslegum rétttrúnaði, segir “litaður” í stað “svertingi”, “indjáni” í stað “frumbyggi”. Í Kanada segir rétttrúnaður að indjánar séu “fyrstu þjóðir”.
Sumt daglegt orðalag er hættulegt: “Útivinnandi móðir”, “miðbær”, einnig ójöfnuður kynja: “Forsetinn kom með forsetafrúnni, sem var í bláum satínkjól með hvítum skóm og hvítri snyrtitösku.”
Victor Navasky, ritstjóri The Nation: “Ekki flækja málið með því að telja siðfræði vera töfraland, sem þú lærir eins og nýtt tungumál. Sérhvert skólabarn hefur hugmynd um, hvað sé rétt og rangt. Beittu því bara.”
Blaðamennska hefur umboð stjórnarskrárinnar til að vernda samfélagið fyrir misbeitingu, grafa upp og koma upp um rangindi og fylgjast af athygli og gagnrýni með stjórnvöldum. Jafnframt gæta sín á meiðyrðum og innrás í einkalíf.
Blaðamaður þarf að vera að vinna að verkefni til að geta spurt ótal spurninga. Hann þarf að gæta mannasiða og vita, hvenær hann á að stoppa. Almennt séð vernda lögin blaðamennsku meira en hindra hana. Það þarf bara að fara að með gát.
Sjá nánar: Michael Robert Evans, The Layers of Magazine Editing, 2004