0721 Áætlanir tímarita

0721

Ritstjórn
Áætlanir tímarita
Michael Robert Evans, The Layers of Magazine Editing, 2004

Edward Kosner, ritstjóri Esquire: Ritstjórn er eins og að tefla þrívíða hraðskák. Þú verður að sjá marga leiki fyrir í einu, verður að vita, hvað þú ætlar að gera, hvað aðrir muni gera. Halda áætlanir löngu áður en þú veist, hvort þær henta.

Ritstjórar tímarita þurfa að sjá langt fram í tímann og meta, hvaða efni og hvaða fólk verði mikilvægast, þegar tölublaðið fer í sölu. Þeir þurfa í tíma að setja af stað ferli, sem leiðir til birtingar á réttum tíma.

Tímarit hafa langan vinnslutíma, oft margra mánaða. Hugmynd sé skráð 16. feb, uppkast greinar komi 4. mars, lokaútgáfa hennar komi 22. apríl, grafískur hönnuður fái efnið 13. maí, efni fari til prentsmiðju 24. júní, birting 15. júlí.

Rieva Lesonsky, ritstjóri Entrepreneur Media: Einu sinni á ári veljum við tvö efni í hvert tölublað. Átta mánuðum fyrir útkomu áætlum við allt tölublaðið. Við getum síðar bætt við, en þú þarft að vera tilbúinn með löngum fyrirvara.

Það, sem er í nýjustu tísku í dag, er á útsölum eftir sex eða átta mánuði. Það er eitt erfiðasta hlutverk á tímaritum að gera sér grein fyrir, hvað muni vekja áhuga lesenda að svo löngum tíma liðnum.

Hugmyndir að efni koma með því að spá í næstu mánuði, með forvitni, með hugarflugi og einkum með góðu sambandi við höfunda, sem flytja með sér ferska vinda og koma aftur og aftur á óvart með atriðum, sem gera tímarit líflegt.

Steve Spence, ritstjóri Car and Driver: “Góðir höfundar, sem hafa áhuga á bílum og skrifum, verða ekki til úr engu. Við þurfum að finna þá, eins og flest tímarit. Oft finnum við þá hjá öðrum tímaritum, oft minni tímaritum.”

Steve Spence, ritstjóri Car and Driver: Margir höfundar hafa samband án þess að vita mikið um tímaritið. Þeir lesa eitthvað í dagblaði um vetnisbíla og vilja skrifa um þá. Saga þeirra hefur engan fókus, oftast almenns eðlis og leiðinleg.

Jackson Mahaney, ritstjóri Endless Vacation: Við biðjum um sterkan fókus, áhugaverð sjónarmið, vel rannsakaðar staðreyndir og góðan stíl. Mikið af hugmyndum verður til á ritstjórn. Við fylgjumst með og fáum hugmyndir.

Mike Curtis, ritstjóri The Atlantic: Endalaus röð er af verðandi greinahöfundum, sem halda, að það sé í lagi að skrifa texta upp úr alfræðibókum um hnúðbaka og ætlast til að við tökum því fagnandi.

Ekki er nóg að grípa handfylli af góðu efni og setja í tímaritið. Við verðum að vera viss um, að efnið sé í fókus blaðsins og að blanda tölublaðsins af efni sé rétt. Sérhvert tölublað þarf að spanna öll sérsvið, sem rúmast í fókusnum.

Karan Davis Cutler, ritstjóri Harrowsmith Country Life: Mikilvægast er að geta planlagt heilt tölublað og heilt ár af tölublöðum, geta séð fyrir sér jafnvægi innan tölublaða og milli þeirra, ákveða hvaða greinar fari saman og hvaða ekki.

Hvernig fara tvær greinar saman í einu tölublaði. Hvernig hindrum við, að tölublaðið sé tilviljanakennt. Þú vilt hafa fjölbreytni, en ekki að ein grein æpi á aðra. Blandan þarf að vera rétt.

Við munum, hvað var í síðustu blöðum, af því að við viljum ekki endurtaka okkur. Við tökum upp efni, af því að það hefur ekki verið lengi í blaðinu. Ef höfundar koma með hugmyndir, látum við yfirleitt þá sjálfa vinna úr þeim.

Algengt er að velja þrjá af umsækjendum í viðtal. Fá tímarit hafa próf, enda eru umsækjendur yfirleitt skólagengnir í blaðamennsku. Meiri líkur eru á ráðningu, ef menn hafa kynnt sig áður sem greinahöfundar.

Michael Bawaya, ritstjóri American Archeology: Furðanlega margir höfundar standa sig illa, sumir skelfilega, þótt þeir hafi góða ferilskrá. Ég reyni síðan að halda þeim góðum með því að láta þá fá gefandi verkefni og hrósa þeim fyrir verk.

Mariette DiChristina, ritstjóri Popular Science: Þetta eru gefandi og þreytandi störf. Hafðu fundi með starfsfólki. Láttu það vita um stefnu blaðsins og veittu því stuðning, láttu áhuga þess og vinnusemi njóta sín.

Starfsmenn ritstjórna eru ráðnir á hefðbundinn hátt. Tímaritin auglýsa í Editor & Publisher og öðrum tímaritum greinarinnar, ennfremur í New York Times og öðrum stórum dagblöðum. Þau fylgjast líka með efnilegu fólki í útskriftarárgöngum.

Ritstjórar byggja upp samband við hóp hæfra, áhugasamra og vinnusamra höfunda. Báðir vilja það sama, frábæra grein, sem lesendur munu elska. Menn eru ósammála um leiðir að markinu, en með sáttfýsi komast þeir að þessari niðurstöðu.

Margot Slade, ritstjóri Consumer Reports: Er ritað orð besta leiðin eða er graf heppilegra? Skilja lesendur gröfin betur? Ef upplýsingar komast ekki til skila, eru þær gagnslausar. Textinn þarf að bjóða lesandann velkominn, létta þarf hann.

Rökleysi auglýsinga smitar inn í texta. Hvað þýðir: Skam bragðast betur! Betur en hvað? Fleiri vilja Frizz! Fleiri en hverjir? Við eigum ekki að gefa altækar yfirlýsingar, sem enginn getur sannreynt.

Rökfræði getur verið ritstjórum gagnleg. Til dæmis: Ef A eða B, þá C. A. Þess vegna C. Námskeið í táknrænni rökfræði hjálpar ritstjórum að reka augun í rökvillur. Losna við: Gera má ráð fyrir. Svo virðist sem. Heilbrigð skynsemi segir.

Sjá nánar: Michael Robert Evans, The Layers of Magazine Editing, 2004