0742
Deyjandi dagblöð
Nákvæmni og læsileiki
Af þeim, sem vita um villur í dagblöðum, kvarta 10%. Enginn meintur viðmælandi Jayson Blair kvartaði yfir uppspuna hans í New York Times. “Skipti ekki nógu miklu máli”, sagði einn, annar var “of önnum kafinn” og “vildi ekki pirra blaðið”.
Af hverju eru blaðamenn og heimildamenn svona afslappaðir gagnvart villum? Enn þann dag í dag, í upphafi 21. aldar, eiga fagmenn í blaðamennsku erfitt með að koma upp föstu ferli til að leiðrétta villur. Yfirmennirnir hafa innbyggða óbeit á leiðréttingum.
Þótt rannsóknir sýni, að almenningur og blaðamenn séu sammála um, að rétt skuli vera rétt í dagblaði, hefur lítið verið gert til að taka á málinu. Tiltölulega lítilvægar villur móta oft neikvæðar skoðanir fólks á efni dagblaða.
Helmingur af villum í blöðum eru einfaldar. Það eru tölur, tímasetningar, nöfn og önnur heiti. Um þrjár villur eru í hverjum fjórum fréttum. En svo eru það oft engar villur, sem kvartað er um. Einn sagðist ekki hafa verið “rekinn”, heldur “látinn fara”. Er ekki villa.
Við tölum um
1) einfaldar villur sem harðar,
2) rangar tölur sem stærðfræðivillur og um
3) rangar tilvitnanir, skekkt viðtöl og annað slíkt sem linar villur. Heimildamenn eru viðkvæmastir fyrir reikningsvillum.
Hluti af trausti dagblaða felst í linum villum, það er að segja í huglægu mati manna á því, hvað séu villur. Minni háttar reikningsvillur geta verið jafn slæmar og meiri háttar linar villur. Þannig eru reikningsvillur alvarlegastar af öllum villum.
Sérstaklega er mikilvægt, hvað heimildamenn hugsa um villur. Heimildamenn eru oft álitsgjafar í samfélaginu. Mat þeirra á villum hefur áhrif á mat samfélagsins. Álit í dagblöðum streymir til heimildamanna og frá þeim til almennings.
Skipting milli áhrifa af tegundum villa á traust dagblaða er þessi: Reikningsvillur 12%, harðar villur 8%, linar villur 6%. Vegna samblöndunar á tegundum af villum verður heildartalan 13% hlutur villa í trausti á dagblöðum.
Enn gildir hin gamla regla blaðamennskunnar: “Segðu söguna og láttu vandamálin af því falla, þar sem þau eiga að falla.” Gott blað getur ekki haft alla sína heimildamenn hamingjusama allan tímann. Sannleikurinn pirrar alltaf einhvern.
Fólk telur, að dagblað, sem er með eina tegund af villum, hafi líka aðrar tegundir af villum og sé almennt kærulaust á því sviði. Oft tengjast þessar villur, því að blaðamaðurinn hefur ekki aflað sér nægilega margra heimilda.
Samhengi er í villum milli hlutfalls á fjölda blaðamanna og dreifingar dagblaðs á heimasvæði þess. 26% af villum tengjast fáum blaðamönnum á hver þúsund heimili. Villur eru þannig sterkt tengdar mati ráðamanna á mannaflaþörf dagblaða.
Minna samhengi er við fjölda blaðamanna á hvern prófarkalesara. Hver blaðamaður, sem bætist við, miðað við óbreyttan fjölda prófarkalesara, eykur reikningsvillur um 2%.
Nákvæmni í skrifum eflir þéttleika í dreifingu dagblaðs ekki mikið á beinan hátt, en meira á óbeinan hátt. Einkum eykur nákvæmnin traust heimildamanna á blaðinu, sem aftur á móti eykur þéttleikann á dreifingunni. Nákvæmni er því góður kostur.
Blanche Perkins sagði nemendum í blaðamennsku að skrifa fyrir tólf ára börn. Edwin Lahy sagði blaðamönnum að skrifa fyrir fólk, sem hreyfir varirnar, þegar það les. Á United Press var kennt að skrifa fyrir mjólkurpóstinn í Omaha.
Blaðamenn nútímans eru tiltölulega menntaðir og hafa tilhneigingu til að skrifa hver fyrir annan eða fyrir sérfróða heimildamenn. Ef ekki er markvisst unnið að því að gera textann læsilegri, er hætt við, að hann fari fyrir ofan garð og neðan hjá lesandanum.
Rannsóknir sýna, að erfitt er að lesa blöð. Margur texti er ruglingslegri og flóknari en hann þarf að vera. Þar á ofan hefur menntun lesenda farið aftur í hlutfalli við skólastig. Þar munar einu ári eða tveimur.
Dagblöð með ritstjórum, sem leggja áherslu á skrif fyrir einfalda lesgetu, ná meiri þéttleika í dreifingu blaðsins á heimasvæði þess. Þar munar 16%. Hins vegar er ekki beint samhengi við sjálfa útbreiðsluna.
Læsileiki íslenzkra dagblaða er lakari en bandarískra. Hér er engin stílmenntun veitt verðandi blaðamönnum, en þar er textastíll kenndur í blaðamannaskólum. Íslenskur dagblaðastíll mótast of mikið af vondum stíl háskólaritgerða.
Læsileikinn er líka í samhengi við hæð á auglýsingatöxtum. Blöð sem skrifuð eru nær máli almennings taka fimm sentum meira á eininguna, þegar búið er að eyða áhrifum annarra þátta.
Okkur hefur hins vegar ekki tekist að sjá samhengi milli læsileika dagblaða annars vegar og þéttleika dreifingar hins vegar. Við vitum þó, að læsileikinn skaðar ekki.
Sjá nánar: Philip Meyer, The Vanishing Newspaper, 2004