0747 Hugsuðir dagblaða II

0747

Skoðanir 2007
Hugsuðir dagblaða II

Hér er farið yfir skoðanir erlendra sérfræðinga á framtíð dagblaða. Þær komu fram árið 2007, aðallega á málþingum Newspaper Association of America og World Association of Newspapers.

Dagblöð á vefnum eiga að vera samin af notendum, t.d. með einkunnagjöf. Þeir eiga að geta brotið blaðið um eftir eigin höfði. Dagblað þarf að vera ofurstaðbundið og persónugert. Dagblaðið er “kaupmaðurinn á horninu”. (Kane Cochran)

Fríblöð ná betur til unga fólksins. Það er meira virði að skipuleggja framtíð en að bjarga nútíma. Velta þarf skjótt upp nýjungum. Útgefendur þurfa að elta markaðinn, sem er orðinn stafrænn. Arðkröfur eru of háar i Bandaríkjunum, 12% er nóg. (Jim Chisholm)

Dagblöð mega ekki fæla fólk með verri þjónustu og hærra verði. Spennan um dagblöðin verður meiri á næsta áratug, en hún hefur verið á þessum. Haldið ykkur fast. (Miles E. Groves)

Blaðamennska verður að vera kjarni og sál dagblaðs. Það þarf að vera tilfinningavera. Það þarf alltaf að vera til taks. Það þarf að vera einstætt. Það þarf að vera létt og staðbundið. (Juan Giner & Juan Senor)

Þegar stafræn miðlun festir sig í sessi, vilja notendur geta treyst henni í sama mæli og þeir gátu áður í dagblöðunum. Samhjálp í filtrun og mælikvarðar á trausti munu hjálpa til við lausn vandans.
(Craig Newmark)

Vörumerki dagblaðs er stærsta eign þess. Dagblað er stofnun, sem nýtur mikils álits. Traust fólks byggist á neti sérfræðinga, sem taldir eru skilja heiminn og geta skilið fréttir frá slúðri. Þetta gerir blöðin ólík öðrum aðilum að internetinu. (Flavio Ferrari)

Prentað mál kann að lifa áfram. Ekki er ástæða til að harma það, ef dagblöðin finna leiðir til nýs lífs. Dagblöðin mega ekki skilgreina sig sem fjölmiðil. Styrkur þeirra felst ekki í stjórn á innhaldi eða dreifingu. Það tekur ekki að reyna að verja slíkt. (Jeff Jarvis)

Fólk mun sækjast eftir dagblöðum, sem hægja ferðina á því og segir því, hvað sé mikilvægt, einkum staðbundið. Einnig eru dagblöðin flott iðnaðarhönnun. Þau þurfa ekki rafmagn, skjárinn tindrar ekki, þau krassa ekki og eru endurnýtanleg. (R. Watson)

Dagblöðin eru fyrsti fjölmiðillinn í almannanotkun. Ekkert bendir til, að markmið og fortíð dagblaðs nýtist ekki í framtíðinni. En fólk mun fá fleiri tegundir miðlunar, burtséð frá aðild eða fjarveru dagblaða. (Stephen Gray)

Dagblaðsfólk þarf að sjá tækifæri í stað ógna. Það þarf að hafa sköpunargáfu og öðlast þjálfun í verkum framtíðarinnar. Það þarf að trúa á framtíð miðilsins. Aldrei hafa verið meiri möguleikar í fjölmiðlun en einmitt núna.
(Tomas Brunegård)

Dagblöðin munu lifa, en verkin verða önnur. Við megum ekki bara líta á blöð sem fréttir eða pappír. Við þurfum að nálgast fólk á nýjan hátt. Það er lykillinn að framtíðinni.
(Rob Curly)

Gleymdu internetinu. Það er ekki óvinurinn. Það mun raunar bjarga dagblöðunum. Lesendur nota ekki dagblöð einfaldlega af því að þeim finnst þau vera leiðinleg. Miklar þjóðfélagsbreytingar eru að gerast.
(Roger Black)

Best heppnuðu blöðin í framtíðinni verða þau, sem eftir internetið halda áfram að setja nýjungar í gang, ekki til að koma í stað dagblaða, heldur til að grípa tækifæri, sem við vitum ekki um núna.
(Michael Raynor)

Hugmyndafræðingarnir hafa komið að utan. Í framtíðinni mun fólk lifa í fjölmiðlunarsúpu. Það veit ekki, hvaðan hlutirnir koma. Tekjur af fjölmiðlum verða minni en þær hafa verið. (John Temple)

Góðir ritstjórar framtíðarinnar munu ekki sætta sig við blaðamennsku nútímans. Þeir munu ekki gefast upp á fréttum, því að fólk hefur ekki gert það. Þeir munu gera hugmyndaríka blaðamennsku að reglu, ekki undantekningu. (Mary Nesbitt)

Yngja þarf upp útlit og innihald dagblaða. Hafa þarf sterkar rætur í samfélagi staðarins. Ekki eru bara hættur á ferð, einnig möguleikar. Mikilvægt er, að dagblöð skilji vel óhlutlægar eignir sínar. (Michael A. Silver)

Við þurfum að breyta viðhorfum okkar. Stefna að vexti fremur en arði. Efla vörumerki dagblaðsins. Finna fjárhagslegan grundvöll fyrir vefinn. (Len Kubas)

Við þurfum að búa til nýjar vörur og nýta eldri vörur til hjálpar. Spurningin er ekki um miðilinn, heldur um gildisaukann, sem dagblaðið hefur fram að færa.
(Takashi Ishioka)

Prentaða dagblaðið minnkar og verður ókeypis. Ný tækni farsíma gerir það gagnvirkara. Sveigjanlegur skjár kemur í stað pappírs.
(Moritz Wuttke)

Það tekur mikinn tíma, orku og vinnu að sannfæra prentritstjóra um, að þeir séu hluti af 24/7 ferli, þar sem prentmiðillinn er aðeins einn af ýmsum miðlum. Framkvæmdastjórnin, útgáfustjórnin þurfa að koma þeim til hjálpar.
(Mario Garcia)

Það verða ekki fyrirtæki, sem valda truflun dagblaða næsta áratug, heldur fólk, sem er skapandi og grípur tækifæri, sem breyta heiminum og heimsmarkaðinum. Fólk vinnur alls staðar að lausnum, innan og utan dagblaða.
(Andrew Nachison)

Aldrei hefur verið betra að vera frumherji í dagblaðaútgáfu en nú. Við erum í umrótatíma eins og var 1950, þegar sjónvarpið kom. Nú er það internetið og félagsleg miðlun þess. Og dagblöðin hafa loksins fattað, að fólk borgar ekki fyrir innihald. (Paul Saffo)