0818 Hnattþorpið 2000

9818

Fjölmiðlasaga
Hnattþorpið 2000

Kostnaður við fyrsta eintak er meginkostnaður við kvikmynd, prentplötu. Hagur stærðarinnar kemur fram í að lækka kostnað við fyrsta eintakið og nýta fleiri eintök en fyrsta eintakið. Almenn lögmál markaðsfræðinnar stjórna fjölmiðlunum.

Sjónvarpsþáttur hefur lítinn jaðarkostnað umfram kostnað við fyrsta notanda. Dagblað hefur meiri jaðarkostnað af meiri pappír og einkum þó af flutningi hvers eintaks til hvers viðskiptavinar. Síminn er milli sjónvarps og prentunar í þætti jaðarkostnaðar.

Miðlar geta af ýmsum ástæðum búið við einokun eða fáokun eða samkeppni. Reynslan sýnir, að því meiri sem einokunin er og því minni sem samkeppnin er, þeim mun fábreyttari og dýrari er fjölmiðlunin. Þetta er líka lögmál úr markaðsfræðinni.

Mestar tekjur miðlunar koma frá endanlegum notanda, annað hvort með sölu eða leigu. Hefðbundin dagblöð og sjónvarp hafa tekjur af áskrift, selt er inn í bíó og símtöl eru mæld. Auglýsendum er seldur aðgangur að notendum. Sú aðferð er allsráðandi á interneti.

Niðurgreiðslur frá hinu opinbera geta verið í formi nefskatts, sem heldur uppi útvarpi og sjónvarpi á vegum ríkisins. Ætlunin er, að þetta leiði til betra efnis en annars væri í boði, en deilt er um, hve mikill sé árangurinn. Þessi tekjuöflun er á undanhaldi.

Sundurgreining markaðarins hefur stuðlað að þröngvarpi. Tæknin gerir kleift að greina sundur notendur í markhópa og beina miðlun að þeim. Þannig eru reknar margvíslegar útvarpsstöðvar, sem hver um sig höfðar til ákveðins markhóps.

Sumir auglýsendur hafa bara áhuga á þröngum markhópum. Tækni og hugbúnaður hafa gert ódýrara en áður að koma þröngvarpi á fót. Hvort tveggja hefur leitt til uppgangs á síðustu árum í ýmiss konar þröngvarpi, svo sem útvarpi og interneti.

Til skamms tíma réðu þrjár sjónvarpskeðjur, CBS, NBC og ABC, ferðinni í Ameríku, með 90% af öllu áhorfi. Nú er það komið niður fyrir helming. Kapalstöðvar hafa tekið við hlutverki keðjanna og um leið dreift áhorfinu út um víðan völl.

Internetið felur í sér rökrétta niðurstöðu þröngvarps til markhópa. Þar eru síður sérhannaðar að þörfum hvers einstaklings fyrir sig. Amazon opnar þér þína eigin síðu, sem búin er til í framhaldi af fyrri viðskiptum þínum við fyrirtækið.

Stafræn miðlun á veraldarvefnum lifir á að minnka leit og milliliðakostnað þinn. Þannig eru flugfarseðlar ódýrir á vefnum, svo og bækur. Ekkert fer í steypu og múr. Hefðbundin fyrirtæki keppast um að koma sér fyrir á veraldarvefnum.

Félagsleg stéttaskipting felst í misjöfnu fé og valdi fólks. Yfirstéttin notar eign sína á fjölmiðlum til að hafa áhrif á efni þeirra. Hún býr til félagslegan rétttrúnað hugmynda, sem stuðla að framhaldi á völdum hennar í þjóðfélaginu.

Ákveðnar formúlur eða klisjur ganga aftur í fjölmiðlum. Þetta geta verið sápur, sakamálasögur, teikniseríur o.s.frv. Þær fela í sér samkomulag framleiðenda og notenda um, hvaða sögur eigi að segja og hvernig og hver eigi að vera sögumaður.

Álitsgjafar stjórnvalda, kaupsýslu, hagsmunahópa og annarra hópa reyna að hafa áhrif á efni fjölmiðla og koma þar að spuna sínum. Innan fjölmiðlana hafa sumir það hlutverk að ákveða, hvað komi út í fjölmiðlinum og hvað ekki. Þeir eru hliðverðir.

Fjölmiðlanir hafa það hlutverk að fylgjast með kerfinu, heiminum, umhverfinu o.s.frv; skýra þetta fyrir notendum, svo að þeir skilji það; flytja gildi frá einni kynslóð notenda til annarrar; og að skemmta notendum.

Upp á síðkastið er farið að tala um fleiri hlutverk, svo sem að velja umræðuefni fólks; setja þjóðum markmið; vera hliðverðir um hvað birt skuli og hvað ekki; og setja upp ramma eða spuna um, hvernig sögur eigi að vera, sjálfsritskoðun.

Í Bandaríkjunum er mikill hluti fólks kominn á þá skoðun, að fjölmiðlar séu hlutdrægir, annað hvort of íhaldssamir eða of frjálslyndir, of hallir undir repúblikana eða of hallir undir demdókrata. Þetta dregur úr virðingu fjölmiðla.

Ný tækni breiðist út milli manna eins og sjúkdómur, hægt í fyrstu og síðan með vaxandi hraða. Notendur meta hagnaðinn af henni, hvort hún fellur að eldri tækni, hvort hún sé of flókin og hvaða tækifæri hún gefur, áður en þeir ákveða sig.

Sumir notendur eru frumkvöðlar, aðrir eru skjótráðnir eða seinráðnir og enn aðrir reka lestina. Tækni víxlverkunar þarf að ná ákveðnum fjölda notenda á sitt band áður en hægt er að segja hana hafa sigrað.

Sumir telja tæknibreytingar og efnisbreytingar valda breytingum í þjóðskipulagi og menningu, aðrir telja þjóðskipulag og menningu valda tæknibreytingum og breytingum á efni miðla. Stjórna miðlarnir eða spegla þeir?

Semiotics er fræðigrein, sem kannar innihald miðla og táknin, sem þar koma fram. Þessi tákn flytja notendum ímynduð verðmæti, svo sem hreyfðar myndir, músík og orð. Framleiðandinn setur þetta saman í pakka, en notandinn opnar hann öðruvísi.

Öllum miðlunarferlum má lýsa með einföldu líkani, þar sem boð frá einstaklingi, fyrirtæki eða stofnun eru þýdd og flutt í efnislegum miðli, rás, til þess, sem boðin eru ætluð. Þetta er kallað SMCR-líkanið, Source-Message-Channel-Reciever.

Marshall McLuhan taldi form fjölmiðla, en ekki efni þeirra, vera hina sönnu fjölmiðlun. Þannig hafi prentverkið verið undirstaða vísinda nútímans. Sjónvarpið hafi svo fært okkur þorpið að nýju, í formi hnattþorpsins, sem er internetið.

Sjá nánar:
Joseph Straubhaar & Robert LaRose,
Media Now
Understanding Media, Culture and Technology,
2006