0821
Fjölmiðlasaga
Útvarp og tónlist 2000
Fyrir daga plötuspilarans var eingöngu lifandi tónlist. Prentaðar nótur voru keyptar á heimilum. Plötuspilarinn jók tækifæri til að hlusta á tónlist og fjölgaði áhugafólki um tónlist. Þjóðlög hvers lands voru sett á hljómplötur.
Útvarpstónlist stækkaði enn hring tónlistar og bauð upp á fjöldahlustun. Þjóðlög urðu eign almennings og erlend tónlist kom til sögunnar, Blues, Gospel og Country. Plötusala minnkaði fyrst, en síðan varð útvarp helsti kaupandi þeirra.
Internetið hefur aukið umsvif tónlistar. Sumir listamenn gefa eingöngu út verk á netinu. Notendur skiptast á tónlist með höfundarrétti með því að nota þjónustu á borð við Gnutella, sem leitt hefur til málshöfðunar gegn netútvarpi og einstaklingum.
Tónlistariðnaðurinn skiptist í listamenn, söngvara og spilara, hljóðver og tæknimenn, útgáfur, heildsala og hljómbúðir. Ódýr hljóðver, sem byggjast á tölvum, hafa gert litlum fyrirtækjum og einstaklingum kleift að gefa út tónverk.
Vörumerki eru eign útgefenda, sem notuð eru um flokka tónlistar. Hver útgefandi getur átt mörg vörumerki. Útgefendur ákveða, hvaða diska og söngva þeir kynna í útvarpi, á plakötum, í blaðaauglýsingum og á tónlistarböndum.
Tónlist er seld á ýmsa vegu, svo sem í hljómbúðum, stórmörkuðum, í netbúðum, eftir vörulistum og á vegum plötuklúbba. Tónlistarspilarinn iPod frá Apple hefur slegið í gegn á allra síðustu árum. Tónbransinn var fyrst á móti því sem öðrum nýjungum.
Í slagsmálum um ólöglega notkun tónlistar hefur komið til sögunnar hugbúnaður á borð við Bit-Torrent, sem geymir brot úr verkum á ýmsum netþjónum og sameinar þau við dreifingu, án þess að hægt sé að rekja uppruna brotanna.
Hakkarar hafa komist inn í iTunes hugbúnaðinn frá Apple og breytt honum á þann veg, að hann virkar fyrir flest form tónlistar, MP3, AAC, WMA o.s.frv. Nýjast er að nota farsíma til að hlaða niður tónlist á miklum hraða.
Tónlistariðnaðurinn í Bandaríkjunum stundaði sjálfsritskoðun fram eftir sjöunda tugi síðustu aldar. En stórar rokksveitir á vegum þekktra útgefenda fóru að nota dónalegra orðbragð og lýsingar, sem leiddi til mótmæla áhugahópa um siðferði.
Yfirheyrslur á bandaríska þinginu leiddu til, að viðvörunarmiðar voru settir á plötur og umslög CD-diska, en áhrifin hafa látið á sér standa, þar sem listamenn hafa gengið lengra síðan, til dæmis, Eminem, og eru leiknir í útvarpi.
Rétthafar tónlistar sækja hart að fá greitt fyrir flutning tónlistar í útvarpi og á netinu og reyna að hindra ólöglega dreifingu tónlistar á netinu. STEF er gamalgróið á Íslandi. Árið 2002 voru sett tónlistargjöld á útvarpsstöðvar á netinu í Bandaríkjunum.
Fyrst minnkaði sala á plötum, meðan fólk var að kaupa útvarp. Til langs tíma urðu útvarpsstöðvar bestu viðskiptavinir plötuframleiðslunnar, sem fór að nota útvarp til að kynna listamenn og plötur, er voru að koma í sölu.
Útvarp í Bandaríkjunum var einkarekið frá upphafi, víða í Evrópu ríkisrekið, þar á meðal á Íslandi. Einkarekið útvarp hefur síðar verið leyft og margar stöðvar eru reknar, oft á grundvelli sértækrar tónlistar.
Breska ríkisútvarpið, BBC, hefur löngum þótt vera til fyrirmyndar í sínum flokki útvarps. Það hefur útvarpað fréttum á ótal tungumálum um allan heim. Auglýsingar eru bannaðar hjá BBC til að verja samkeppnisstöðu einkarekinna stöðva.
Útvarp byggist mest á tónlist, einnig á fréttum, íþróttum, gamanþáttum, sápu, leikritum, spennuþáttum og ævintýrum. Sumt af þessu fluttist yfir í sjónvarp, þegar það kom til sögunnar.
Þegar sjónvarp var að koma inn á hvert heimili, minnkaði notkun útvarps og efni þess breyttist. Síðan hefur tónlist verið meira afgerandi sérkenni útvarps, einkum byggt á plötusnúðum, er spila það, sem er vinsælast á markaðssvæðinu, í markhópnum.
Hágæðaútvarp hefur verið til í Evrópu síðan 1997, en hefur verið seinna að taka við sér í álfunni vegna ágreinings um fyrirkomulag. Margir vilja haga málum á þann hátt, að þessar stöðvar trufli ekki AM-útvarp, sem er tæknilega erfitt.
Margar útvarpsstöðvar erlendis senda efni sitt á netinu, tónlist, fréttir og annað efni. En margar urðu að hætta, þegar farið var að innheimta rétthafagjöld í Bandaríkjunum. Leyfisgöld hafa lengi verið í góðum farvegi á Íslandi.
Vefvarp notar nýja tækni á netinu, sendir strauma af brotum úr lögum í stað heilla laga. Vefvarp notar MP3 staðalinn, sem hentar Winamp hjá Windows og iTunes hjá Macintosh eða RealNetworks.
Talmálsútvarp er notað af fólki við akstur. Það er með veðurfréttir, fréttir af umferð, íþróttafréttir og almennar fréttir. Það er líka með umræðustjóra og álitsgjafa, sem sumir hverjir eru spilaðir á mörgum útvarpsstöðvum.
Sjálfvirkar spilunarvélar eru orðnar mjög ódýrar og hægt að forrita þær á hverjum stað fyrir sig. Spilunarvél, sem tekur 300 CD-diska og segulbönd fyrir auglýsingar, kostar minna en 10.000 dollara, töluvert innan við eina milljón kr.
Helstu störf á útvarpi eru
1) framkvæmdastjórn, sem sér um laun, bókhald og innkaup,
2) dagskrárstjórn, sem sér um lagalista og almannatengsli, og
3) auglýsingaöflun. Oft sjá einstakir aðilar um margar stöðvar í senn.
Sjá nánar:
Joseph Straubhaar & Robert LaRose,
Media Now
Understanding Media, Culture and Technology,
2006