0842
Fréttir 2007-2013
Google
Google var stofnað 1998 af Larry Page og Sergey Brin. Það er stærsta leitarvél heims, en í seinni tíð líka útgefandi. Google er líka með Gmail, GoogleNews, Froogle, GoogleMaps, Google Book Search, Google Talk, Google Earth og margt fleira.
Google var árið 2006 að byggja risavaxið netþjónasetur í Oregon til viðbótar tölvunetinu Googleplex, sem nær um allan heim. Tölvum hjá Google hefur fjölgað úr 8.000 árið 2001 í 450.000 árið 2006. Þær urðu 800.000 árið 2011.
Google hefur búið til Google Apps, ókeypis vefpakka með tölvupósti, skilaboðum, dagbók, ritvinnslu og töflureikni, sem keppir við Microsoft Office. Ýmis fyrirtæki hafa tekið upp Google Apps og spara miklar fjárhæðir.
Búist er við, að Google símar sameini ýmis forrit frá Google, leitarvélina, Google Maps, YouTube og Gmail. Undir verði opið forrit, Android. Gert er ráð fyrir, að Google muni starfa með símafélögum.
Google Earth kom árið 2007 með þrívíddarsýn á margar stórborgir. Microsoft er komið í samkeppnina með Virtual Earth. Málsaðilar stefna að þrívíddarsýn á alla plánetuna. Þú getur þá ferðast um allt og setið samt kyrr á sama stað.
Um mitt ár 2006 kom Google með Google Video. Það skipuleggur sjónvarpsnotkun fólks að hætti YouTube. Notendur gefa efninu einkunnir. Notkun sjónvarps færist inn í fartölvur. Google keypti síðan YouTube .
Upphæðir er lágar, sem venjulegir bloggarar fá fyrir auglýsingar í AdSense hjá Google. Ureneck bjó til bloggsvæði um Epirus og fékk einn dollar eftir fyrstu vikuna, tvo dollara eftir þá næstu. Ef vel gengur, getur upphæðin farið að skipta máli.
Google hefur vakið reiði sumra útgefenda með umfangsmikilli afritun bóka í stafrænt form. Hún fer fram í samstarfi við þekkt bókasöfn og raunar líka við útgefendur. Aðeins 20% bóka eru fáanlegar á prenti. Framtak Google kemur líka niður á Amazon.
Fyrst var það bókaskönnunin og nú er það Android, opið stýrikerfi fyrir farsíma. Hugmyndafræðin er að farsímar eigi að vera opnir eins og internetið. Android byggist á Linux og allir eiga að geta bætt við Android. Aðrir símar hafa lokað stýrikerfi með einkarétti.
Android felur í sér opið stýrikerfi farsíma, óháð símum og símafélögum, alveg eins og internetið sjálft er opið stýrikerfi, óháð tölvum og hýsingaraðilum. Farsíminn yrði þá í svipaðri stöðu og nettengd fartölvan.
Samkeppni Android er þó ekki við önnur stýrikerfi, heldur við símafélögin í Bandaríkjunum, AT&T og Verizon, sem halda þar úti lokuðum kerfum. Apple beygði sig fyrir þeim með iPhone, en Google hyggst keppa við þau. Og opin kerfi eru auðvitað sterk.
Google tilkynnti í árslok 2007, að það mundi bjóða í opna tíðni fyrir farsíma, sem verður úthlutað. Skilyrði fyrir úthlutun var, að tíðnin yrði öllum opin, að kröfu Google og fleiri aðila. Eftir það verður farsíminn opinn eins og veftölvur.
Um mitt ár 2007 bauð Google 4,6 milljarða $ í hluta ljósvakans. Fyrirtækið vill komast úr spennutreyju símafélaga. Google hefur gert opinn hugbúnað fyrir síma, Android, og gert bandalag við önnur fyrirtæki um notkun hans við síma, sem eru á netinu.
Margt er gott við Google. Auglýsingaverð þess ræðst í uppboðum. Það notar ekki yfirburði á einu sviði til að ná í þá á öðru (Microsoft). Bókaskönnun þess hjálpar útgefendum. Það hefur ekki rofið persónulegan trúnað (Yahoo) við bloggara. En þarf meira gegnsæi.
Þeir, sem fara í Kína á google. com hafna á google.cn, sem er mikið ritskoðuð útgáfa. Google varði þetta með því, að ritskoðuð útgáfa væri betri en engin. Notendur í Kína fá að vita á leitarsíðum Google, að leit þeirra hafi verið takmörkuð við ritskoðað efni.
Google fetaði í fótspor Yahoo, Microsoft, Cisco og annarra nýmiðla, sem hafa gefið eftir í Kína. Yahoo afhenti tölvupóst tveggja andófsmanna, sem voru síðan dæmdir í langt fangelsi. Google býður því ekki upp á tölvupóst í Kína.
Sergei Brin, forstjóri Google, hefur lýst áhyggjum af eftirgjöf fyrirtækisins gagnvart Kína. Enn hefur þessi efi þó ekki leitt til breytinga á rekstri þess í Kína.
Google hefur tekið upp harða andstöðu gegn kærum, semur ekki um niðurstöðu, heldur ver sig með hópi lögmanna. Með góðum árangri. Fyrirtækið vill opna ágreiningsefnið um höfundarétt, gera meðferð höfundaréttar sveigjanlegri.
Nokkrir evrópskir fjölmiðlar hafa reynt að banna Google News notkun á fyrirsögnum síns efnis. Agence France Presse er þekktasta dæmið um það. Belgískur dómstóll hefur bannað Google að nota efni belgískra dagblaða.
Fréttastofnanir og útgefendur reyna að blokkera leitarvélar á borð við Google til að verja eignarhald sitt. Þeir hafa notað Robots.txt. Og vilja núna útvíkka aðferðina með frekari þrengingum. Það er þó háð samþykki leitarvéla.
Í september 2007 fór Google að nota efni beint og umsamið frá AP, AFP, Press Association og fleiri fréttastofum án þess að fara gegnum aðra miðla. Þá var Google með 10 milljón heimsóknir, en Yahoo með 34 milljónir heimsókna.
Andstæðingum Google fjölgar stöðugt. Sjónvarpskeðjur, bókaútgefendur, dagblöð óttast risann, telja hann nota efni þeirra án leyfis. Talsmenn persónuverndar eru líka hræddir við logga um netnotkun og viðskiptahætti, tölvupóst, sjúkraskýrslur, staðsetningu.
Evrópusambandið er að kanna, hvort í lagi sé yfirtaka Google á DoubleClick auglýsingamælinum. Menn hafa áhyggjur af persónuvernd og af því að einn stærsti miðill auglýsinga sé um leið mælir slíkra auglýsinga.
Árið 2013 var Google komið með WebSearch, Mobile, News, Translate, BlogSearch, Alerts, Image Search, Drive, Groups, Scholar, Code og var orðið meira veldi en Microsoft og Apple. Greinilega það fyrirtæki, se hafði frjóasta hugsun í bransanum.