5111
Æfingin skapar meistarann
Kaloríustaðan metin
* Í síðdegiskaffinu met ég kaloríustöðu mína.
* Er ég á réttu róli miðað við ráðlagðan dagskammt?
Ef ég er yfir mörkum, hef ég svigrúm til að laga stöðuna áður en degi lýkur?
Ef ég er undir mörkum, get ég leyft mér að fá mér epli eða kakó eða piparköku í kvöldsnarl.
* Ekki vil ég fara yfir mörk dagsins og ekki heldur vera langt undir þeim, þegar degi lýkur.
* Ég er ekki að hugsa um að léttast í flýti, heldur hægt og sígandi.
* Mikil rýrnun á stuttum tíma getur leitt til, að svengdin verði allsráðandi og þú springir á limminu.
Með látum.
* Sígandi lukka er bezt í þessu eins og svo mörgu öðru.
Nauðsynleg matardagbók
Þurfir þú að berjast við ofþyngd, kemur matardagbók að góðu gagni.
Þú þarft þá að eiga matarvog, desilítramál og
bókina Næringartöflur.
Eftir erfiðleika og hökt í upphafi ertu enga stund að skrá dagsneyzlu.
Heppileg er innbundin dagbók með einni síðu fyrir hvern dag.
Bezt er að skrá matarpunktana eftir hverja máltíð, svo að ekkert gleymist.
Fljótlega á punktagjöf þín að vera í samræmi við raunveruleikann.
Leyfi þyngdarstuðull þinn þér 40 punkta á dag, veiztu, að neyzla 38 punkta á dag léttir þig um 350 grömm á viku.
Slíkt er hæfilegt, því að algert óráð er að reyna með frekju að léttast of hratt.
Talning á kaloríum
Var lengi að koma mér að talningu á kaloríum.
Það var ekki fyrr en ég fór í endurhæfingu á Reykjalundi eftir erfiðan hjartauppskurð.
Þar fékk ég að taka þátt í fræðslu um gerð matardagbókar.
Fljótt kom í ljós, að ég hafði ofmetið fyrirhöfnina.
Að vísu þarf að komast yfir þröskuld í upphafi.
* Ég varð að kynna mér bókina Næringartöflur og átta mig á framsetningu á kaloríutölum.
* Ég varð að fara að nota matvælavog og desilítramál.
En fljótlega varð þetta leikur einn.
Fyrst notaði ég tölvuútreikninga á Matardagbokin.is en nú nota ég tölvuútreikninga á KeyHabits.is.
Í báðum tilvikum sýnir reynslan, að dagbókin er rétt skráð. Er ekki fölsuð.
Að vigta ofan í sig
Þegar mér var fyrst bent á að halda matardagbók, var ég neikvæður.
Ég nennti ekki að vigta ofan í mig mat.
Að finna þyngd á hafraflögum í morgunmat, glasi af appelsínusafa og öðru glasi af AB-léttmjólk.
* Reynslan sýndi mér þó, að ég var enga stund að finna út úr þessu.
Hafraflögur upp á 100 kaloríur, safi á 50 kaloríur og AB-léttmjólk á 100 kaloríur.
* Þegar ég hafði mælt þetta einu sinni, þurfti ég ekki að gera það aftur.
Meiriparturinn af því, sem ég borða heima hjá mér, felst í þekktum stærðum, sem ég hef áður mælt.
En einkum á veitingahúsum þarf ég þó að áætla fjölda kaloríanna, sem ég er að innbyrða.
Með þyngdina á púlsinum
Þegar þú hefur haldið matardagbók í tvo mánuði, veiztu hvernig þú stendur hvenær sem er.
Þú veizt, að í dag getur þú fengið þér epli í kvöldsnarl, því að þú veizt, að þú ert ekki búinn að fylla kvóta dagsins.
Eins veizt þú, að í dag getur þú ekki fengið þér ís eftir kvöldmat, því að kvóti dagsins er fullur.
Þú þarft ekki einu sinni að stíga á vog til að vita þyngd þína.
Svo eru nákvæmar vogir í sund-laugum og líkamsræktarstöðvum.
Þær mæla þyngd upp á 50 grömm.
Vertu í líkamsrækt eða sundi og notfærðu þér þessar vogir.
Smám saman áttarðu þig á öllum breytingum og getur strax stöðvað þyngdaraukningu.
Æfingin skapar meistarann