5139
Æfðu góðan vana
Lífsstíll gegn offitu
Offita Vesturlandabúa stafar af röngu mataræði og hreyfingarleysi.
Til að losna við vandann þarftu að skipta um lífsstíl.
Þú þarft líka að koma upp kerfi, sem leysir af hólmi bilaðan gangráð heilans.
Bilaður gangráður heilans segir þér ekki lengur, hvenær sé komið nóg.
Í þessari fyrirlestraröð er farið yfir vandann í heild.
Bent er á ýmsar leiðir, sem gefa þér nýjan lífsstíl, meiri yfirsýn í mataræði, breyttan persónuleika.
Allt þetta þarf til að ná tökum á offitu og ofþyngd.
Reglurnar hér byggjast á eigin reynslu minni, reynslu annarra, sem hafa við sama vanda að stríða og á þeirri þekkingu, sem vísindin hafa fært okkur.
Vondur vani og góður
Munurinn á vondum vana og góðum vana getur skipt sköpum.
Vondur vani getur falizt í að fá sér snarl eftir kvöldmat.
Að kaupa kleinupoka til að borða upp úr á leiðinni austur fyrir fjall.
Eða að setja súkkulaðikex í pokann í matvörubúðinni. Og svo framvegis.
Góður vani felst í að forðast snarl eftir kvöldmat og grípa ekki ýmsan óþarfa í verzlunum.
Smám saman breytist vondur vani í góðan vana.
Freistingunum fækkar og líf þitt verður bærilegra.
* Mundu samt, að þetta er tæknileg hjálp eins og aðrar reglur, sem þú setur þér.
* Góðar reglur og góður vani eru góð hjálpartæki, en ekki lausnin sjálf.
Skráning stjórnleysis
* Þegar þú lendir í stjórnlausu ofáti, þarftu að nema staðar og skrá, hvað þú var að borða síðasta sólarhring.
* Einhvers staðar kann þar að leynast lúmskt gikkfæði.
Það er að segja matur eða snakk, sem framkallar óviðráðanlega svengd.
Endurtekið ofát þarf að leiða til endurtekinnar skrásetningar á neyzlu síðasta dags.
Þá kemur væntanlega í ljós, hvaða fæða það er, sem er sameiginleg miklum fjölda atvika af ofáti.
* Kostur við matardagbók er, að hún festir upplýsingar á bók, sem hægt er að fletta í til samanburðar.
* Þegar þú finnur gikkfæðið, er nauðsynlegt fyrir þig að strika alveg yfir notkun þess.
Matur er miðja dagsins
* Fyrstu merki um matarfíkn eru oft þau, að þú byrjar að skipuleggja daginn umhverfis matmálstíma.
* Þú verð miklum tíma í að hugsa um mat og að tala um mat.
* Þú hrærir í matnum á disknum, lokar þig af til að fá þér ábót, notar öll tækifæri til að komast í mat.
* Börn stela mat milli mála.
* Þér líður óþægilega, þegar þú lendir í kringumstæðum, þar sem matur kemur ekki við sögu.
* Þú borðar fyrirfram og aukalega til að verða þér ekki til skammar á matmálstíma.
Þetta eru allt hættumerki.
Þau leiða fljótlega til eindregnari aðgerða þinna til að blekkja aðra og ekki síður til að blekkja sjálfan þig.
Blekkir þig og aðra
Þegar fíknin ágerist, koma í ljós einkenni, þar sem þú reynir að blekkja þig og aðra.
Þú kaupir mat fyrir aðra og borðar hann sjálfur.
Naslar í mat og lokar augunum fyrir heildarmagninu.
* Þú felur mat og að borðar í laumi.
* Hættir að telja kaloríur, fyrst í græðgisköstunum.
* Borðar hóflega í veizlum og bætir þér það upp á eftir.
* Felur umbúðir, treður þeim til dæmis neðar í ruslapokann, svo að þær sjáist ekki
* Borðar allar matarleifar.
* Heimsækir fólk, er bakar mikið.
* Blandar geði við virkar ofætur.
* Frystir mat til síðari tíma, en borðar hann svo frosinn.
* Kennir börnunum um óútskýrt matarhvarf.
Æfðu góðan vana