Höfundur kraftaverkabókarinnar Matarást frá 1998 hefur nú gefið út nærri eins stóra fylgibók, Matreiðslubók Nönnu, með 3600 uppskriftum í framhaldi af hinni þriggja ára gömlu orðabók matargerðarlistarinnar. Saman veita þessar tvær bókstaflegu þungavigtarbækur eins konar háskólamenntun í matargerðarlist.
Óþekkt vann Nanna Rögnvaldardóttir svo mikinn sigur með fyrri bókinni, að miklar kröfur eru sjálfkrafa gerðar til hinnar síðari. Fyrri bókin bar raunar af orðabókum matargerðarlistar á öðrum tungum, sem ég hafði þá séð og hef enn séð, þar á meðal hinum gamalfranska Larousse, sem margir útlendingar nota enn sem biblíu matargerðarlistar.
Síðari bók Nönnu gengur ekki svona langt, þótt hún sé rúmlega þrjú kíló að þyngd eins og hin fyrri. Hún er raunar minni að vöxtum en sum hliðstæð undirstöðurit uppskrifta í matargerðarlist á öðrum tungumálum. Hin bandaríska Joy of Cooking er til dæmis með tvöfalt fleiri uppskriftir í útgáfu frá 1963, sem ég nota stundum heima.
En Matreiðslubók Nönnu er á íslenzku og notar íslenzkar mælieiningar. Hún er ríkulega skreytt litmyndum alþjóðlegrar söluskrifstofu matargerðarljósmynda. Hún er skýrari og fegurri en erlendar bækur af þessum toga, til dæmis hin jafnstóra Blå kogebog frá Gyldendal. Uppskriftirnar eru tiltölulega einfaldar og miðast við hráefni, sem fæst hér á landi.
Uppskriftunum er raðað í hefðbundna flokka. Aftast eru tvær skrár, önnur nafnaskrá og hin flokkar uppskriftirnar eftir matreiðsluhefðum hvorki fleiri né færri en 130 landa og þjóða. Í klukkutíma leitaði ég árangurslaust að villum í skránum. Af því ræð ég, að nákvæmni sé ekki síðri í nýju bókinni en hinni fyrri, auk þess sem stafrófsröð broddstafa er orðin rétt.
Bókin er þjóðleg og alþjóðleg í senn. Þar má finna heimilismat á borð við ediksoðinn rauðmaga, plokkfisk á rúgbrauði og íslenzka kjötsúpu, franska klassík á borð við átta tegundir af frönsku soufflé og framandi rétti frá ýmsum heimshornum, svo sem tagína frá Túnis, grænlenskt selkjöt í hrísgrjónavellingi og fylltan lunda frá Færeyjum.
Með fjölbreyttar þungavigtarbækur Nönnu á hillunni fyrir ofan eldavélina þurfa íslenzk heimili tæpast fleiri, nema heimiliskokkurinn hafi brennandi áhuga á þröngum sérsviðum matargerðarlistar. Við skulum samt vona, að afrekið lami ekki framtak annarra höfunda. Þótt undirstöðuritin séu fengin, þurfum við áfram sérbækur og persónulegar bækur.
Jónas Kristjánsson
DV