Nató á villigötum í Bosníu

Greinar

Hersveitir Atlantshafsbandalagsins í Bosníu er farnar að hafa afskipti af innanþjóðarátökum Serba. Þær draga taum forseta Serba gegn þingi Serba. Þær senda lið til stuðnings sveitum forsetans, þegar þær eru að reyna að komast yfir vopn og tæki sveitanna, sem styðja þingið.

Forseti Serba í Bosníu er Biljana Plavsic, þekkt stríðsglæpakona, sem var engu vægari í samskiptum við Bosníumenn og Króata en hinn illræmdi Radovan Karadzic, sem meira bar á í blóðbaðinu, af því að hann hafði krumpað gaman af að rífa kjaft í erlendum fjölmiðlum.

Ekki verður séð, að neitt umboð eða neinn tilgangur sé með stuðningnum við Plavsic. Hún leysti upp þingið af því að það var henni mótdrægt. Hún braut þannig eitt helzta grundvallaratriði lýðræðis. Ástæðulaust er að koma nálægt henni á annan hátt en með töngum.

Sá munur er að vísu á Plavsic og Karadzic, að hún lifir á eðlilegum tekjum, en hann lifir á smygli og stuldi á fjármunum ríkis og borgara. En þau lögbrot hans eru innanríkismál, sem koma Atlantshafsbandalaginu ekkert við. Sakir hans eru allt aðrar og meiri.

Atlantshafsbandalagið hefur misserum saman haft það hlutverk í Bosníu að hafa hendur í hári Karadzics og nokkurra sálufélaga hans til að koma þeim í hendur stríðsglæpadómstólsins í Haag. Þetta hlutverk hefur bandalagið gersamlega vanrækt og vanrækir enn.

Það kann að friða slæma samvizku foringja hjá Atlantshafsbandalaginu að bæta sér upp aðgerðaleysið með því að taka afstöðu gegn Karadzic í minni háttar málum. Það breytir ekki því, að þeir eru aumingjar að geta ekki sinnt raunverulegu hlutverki sínu.

Undir forustu stjórnar Bandaríkjanna og með stuðningi stjórna Bretlands og Frakklands var á sínum tíma undirritaður samningur deiluaðila í Bosníu um skiptingu landsins, heimferðir flóttafólks og margvísleg önnur skref á leið landsins aftur til eðlilegs ástands.

Atlantshafsbandalaginu var falið að sjá um, að staðið yrði við samninginn. Skemmst er frá því að segja, að deiluaðilar hafa tregðazt við efndir og Bosníu-Serbar hafa skipulega hunzað öll atriði samningsins. Atlantshafsbandalagið hefur látið þetta kyrrt liggja.

Nú liggur fyrir, að ekki stendur steinn yfir steini samningsins um Bosníu og að Atlantshafsbandalagið hefur hvorki kjark né siðferðilegt bolmagn til að sinna hlutverki sínu á staðnum. Þá taka sveitir bandalagsins upp á því að fara að skipta sér af allt öðrum málum.

Afskiptasaga Vesturlanda af málefnum Bosníu er orðin slík eymdar- og hrakfallasaga, að ekki er á hana bætandi. Samt eru 350 hermenn bandalagsins sendir til að skipta sér af málum, sem koma samningnum um Bosníu ekkert við. Það er eins og mönnum sé ekki sjálfrátt.

Hvað varðar Atlantshafsbandalagið um, hvort eitt fúlmennið í Bosníu hleri síma annars fúlmennis? Hvað varðar bandalagið um meintar fyrirætlanir eins glæpamanns í garð annars glæpamanns? Af hverju getur bandalagið ekki sinnt skyldustörfum sínum?

Ekkert eitt mál hefur valdið Vesturlöndum eins miklum álitshnekki í umheiminum og getuleysi þeirra til að fylgja eftir Bosníusamningnum. Um allan heim sjá fantar og fól, að það er hið bezta mál að standa uppi í hárinu á Vesturveldunum og rjúfa alla gerða samninga.

Þannig eru og verða framleidd skrímsli á borð við Karadzic í Bosníu og Saddam Hussein í Írak. Auðvitað á að taka Karadzic höndum og það í grænum hvelli.

Jónas Kristjánsson

DV