Nató er gaggandi hæna

Greinar

Aldrei skal hóta neinu, sem ekki er ætlunin að standa við. Þessi grundvallarregla gildir í pólitískum samskiptum ríkja eins og í póker. Ef mótspilarar átta sig á, að þú segir digurbarkalega án þess að hafa annað en hunda á bak við sagnirnar, láta þeir þig jafnan sýna þá.

Mörgum sinnum hefur verið bent á hér í blaðinu, að fáránlegt er, að hernaðarbandalag á borð við Atlantshafsbandalagið sé að hóta ríkjum út og suður án þess að meina neitt með því. Þetta hefur hvatt Slobodan Milosevic og Saddam Hussein til að fara sínu fram.

Þegar hernaðarbandalög verða fyrir áreiti, á að vera tilbúin áætlun um, hvers konar áreiti leiði til hvers konar gagnaðgerða. Ekki dugir að byrja á að hóta öllu illu og hlaupa svo eins og gaggandi hænur út og suður til að reyna að leita að samkomulagi um aðgerðir.

Áður hefur mörgum sinnum komið fram í viðbrögðum Atlantshafsbandalagsins í málefnum arftakaríkja Júgóslavíu sálugrar, að ráðamenn þess eru greindarskertir og ófærir um að læra af reynslunni, þótt þeir segi hver um annan þveran, að þeir þurfi að gera það.

Bjánalegar fullyrðingar ráðamanna bandalagsins framkalla hörmungar. Kúgaðar undirþjóðir á borð við Bosníumenn og Kosovomenn í fyrrverandi Júgóslavíu og Kúrdar og sjítar í Írak taka fullyrðingarnar meira eða minna trúanlegar og æsa kúgarana til óhæfuverka.

Þegar fjöldamorðin hefjast, byrjar Nató að gagga og því hærra, sem hraðari verður framvinda þeirra. Þegar hörmungarnar eru orðnar nógu hrikalegar, hefst undirbúningur loftárása, sem smám saman leiðir til, að Milosevic gerir tímabundið hlé á fjöldamorðunum.

Þegar þetta hefur leitt til þess, að undirbúningi loftárása er hætt í bili, hefja þeir félagar aftur fjöldamorð og fá nokkrar vikur eða mánuði til að magna þau, áður en þeir verða enn að gera hlé. Þannig ná þeir markmiðum sínum í mörgum, markvissum áföngum.

Stefna Milosevic hefur árum saman verið skýr. Hann vill hrekja 90% íbúa Kosovo úr héraðinu, svo að þar verði ekki eftir aðrir en Serbar. Hvort meirihlutinn flýr ofsóknir eða fellur í fjöldamorðum, skiptir hann engu. Hann er kvörn, sem malar hægt, en örugglega.

Ráðamenn Atlantshafsbandalagsins verða að gera sér grein fyrir, hvort þessi ráðagerð fjöldamorðingjans kemur bandalaginu við og þá hvernig. Ef ekki er samkomulag í bandalaginu um að ganga milli bols og höfuðs á stjórn Milosevics, á að láta villidýr Serba í friði.

Ef hins vegar ráðamenn bandalagsins telja, að því sé skylt stöðu sinnar vegna að grípa til aðgerða, er tilgangslaust að miða aðgerðirnar við að sannfæra Milosevic um eitthvað. Hann er ekki sú manngerð. Aðgerðirnar verða að hrekja hann og menn hans alveg frá völdum.

Augljóst er af reynslu síðustu ára, að bandalagið er ófært um að deila og drottna á Balkanskaga. Það getur ekki ákveðið að koma Milosevic fyrir kattarnef og veita Kosovomönnum sjálfstæði. Þess vegna á það að halda að sér höndum og láta vera að synda í djúpu lauginni.

Gaggið í yfirmönnum Nató staðfestir það, sem áður var vitað, að bandalagið hefur glatað hlutverki sínu við fall járntjaldsins og lok kalda stríðsins. Það er orðið að vestrænum fínimannsklúbbi, sem hvorki mun víkka verksvið sitt né finna sér neitt nýtt að föndra við.

Bandalagið á að halda sér til hlés og hlífa okkur við þjáningum, sem fylgja því að horfa á það niðurlægt af hverjum þeim dólgi, sem nennir að sparka í það.

Jónas Kristjánsson

DV