Atlantshafsbandalagið er örvasa gamalmenni í andarslitrunum, þótt starfsmenn þess reyni að telja sér trú um, að það hafi eitthvað til að lifa fyrir. Því hefur verið falið að sjá um friðargæzlu í Bosníu og hafa hendur í hári eftirlýstra stríðsglæpamanna. Þótt saksóknari stríðsglæpadómstólsins fyrir arfaríki Júgóslavíu, Carla del Ponte, hafi oft bent á, hvar hinir óvenjulega ógeðfelldu stríðsglæpamenn Ratko Mladic og Radovan Karadzic halda sig, hefur Nató ekki haft burði til að ná í þá. Sheri Fink skrifar í International Herald Tribune um gæfuleysi friðargæzlunnar í Bosníu.