Nató klúðraði Bosníu

Greinar

Eftir að hafa farið vel af stað í vetur og komið með handafli á friði í Bosníu, er Atlantshafsbandalagið nú að klúðra verkefninu. Því hefur mistekizt að sjá um, að deiluaðilar uppfylli skilmála friðarsamningsins frá því í nóvember, og engin teikn eru á lofti um slíkt.

Samkvæmt samkomulagi vesturveldanna á 60.000 manna lið bandalagsins að hverfa frá Bosníu fyrir áramót, að loknum frjálsum kosningum í landinu, þar sem hver geti kosið í sinni heimabyggð. Bandaríkjastjórn vill, að þetta takist fyrir forsetakosningarnar vestra.

Utanríkisráðherra Sviss er formaður stofnunar, sem á að úrskurða, hvort skilyrði friðarsamningsins hafi verið uppfyllt og kosningar geti farið fram í Bosníu. Bandaríkjastjórn hefur ítrekað heimtað, að hann geri þetta, en hann er sagður neita að taka mark á rugli.

Sannleikurinn er sá, að nákvæmlega ekkert hefur verið gert til þess að tryggja, að kosningar geti farið fram með umsömdum hætti og að friður haldist í landinu í framhaldi af brottför setuliðsins. Það verður því annað hvort að vera áfram eða vesturveldin játa uppgjöf sína.

Eins og jafnan áður eru Serbar erfiðastir viðureignar. Þeir hafa ekki leyft íbúum annarra þjóðerna að hverfa til sinna heimahaga og hafa hrakið þá á brott, sem það hafa reynt. Setulið Atlantshafsbandalagsins hefur ekki lyft litla fingri til að sjá um efndir á þessu sviði.

Enn fremur hafa Serbar ekki gert neina tilraun til að afhenda stríðsglæpadómstóli Sameinuðu þjóðanna eftirlýsta menn. Setulið Atlantshafsbandalagsins hefur ekki lyft litla fingri til að sjá um efndir á þessu sviði og hefur raunar markvisst forðast að vita um tilvist þeirra.

Fleiri en Serbar hafa lagt stein í götu friðarferilsins, svo sem sýnir framferði Króata í Mostar. Þeir hafa þó framselt stríðsglæpamann eins og íslamar hafa gert. Raunar er íslamska stjórnin í Sarajevo eini málsaðilinn, í Bosníu, sem hefur reynt að efna friðarsamninginn.

Hinn sænski stjórnmálamaður Carl Bildt, sem er yfir borgaralegum þáttum málsins, missti strax í upphafi tök á þeim og hefur ekki náð þeim aftur. Hann fyllir flokk stjórnmálamanna á borð við David Owen og Thorvald Stoltenberg, sem steytt hafa illa á skeri Serba.

Einhver óskhyggja virðist hafa ráðið gerðum þessara stjórnmálamanna eins og raunar hinna vestrænu herforingja, sem hafa komið að málinu. Af fyrri reynslu mátti þó vita, að vestrænar samningareglur gilda alls engar í samskiptum við Serba. Þeir skilja þær alls ekki.

Þegar Bandaríkjastjórn lamdi hnefanum í borðið í vetur, kom í ljós, að Serbar skildu það og skrifuðu undir friðarsamninga. Samt hafa umboðsmenn Vesturlanda síðan haldið áfram að haga sér eins og Serbar skilji eitthvað annað en ofbeldi og hótanir um ofbeldi.

Afleiðing vestræns ræfildóms er nú að koma í ljós. Stríðsglæpamenn Serba ganga lausir og engar alvörukosningar verða á yfirráðasvæðum Serba í náinni framtíð. Bandaríkjastjórn vill fara eins að og hún gerði í Víetnam, lýsa yfir sigri og flýja með allt á hælunum.

Líklega munu bandamenn hafa Bandaríkjastjórn ofan af fyrirætlunum um brottflutning setuliðs fyrir bandarísku forsetakosningarnar, þannig að um 20.000 manna vestrænt setulið verði áfram í Bosníu. En ekki verður séð, að því fylgi neitt annað friðarferli í Bosníu.

Þótt Atlantshafsbandalagið hafi farið vel af stað í Bosníu í vetur, er staðan nú sú, að mestar horfur eru á, að það bíði þar niðurlægjandi ósigur að lokum.

Jónas Kristjánsson

DV