Nató til Afganistan?

Punktar

Colin Powell, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, lagði í gær til, að Atlantshafsbandalagið taki umtalsverðan þátt í friðargæzlunni í Afganistan. Tillagan siglir í kjölfar mánaðarlangs þjarks í bandalaginu um, hvort það sé innan verksviðs varnarbandalags að senda hergögn til Tyrklands til varnar gagnárás, ef ríkið tekur óbeinan þátt í árás Bandaríkjanna á Írak. Vafalaust er bandalagið komið langt út fyrir verksvið sitt, ef það tekur að sér að vernda leppstjórn Bandaríkjanna í Afganistan. Þar hafa hrunið vonir manna um bætt stjórnarfar og bætta líðan fólks eftir fall Taliban-stjórnarinnar. Víðast hvar í landinu eru konur ofsóttar sem fyrr. Ræktun eiturlyfja hefur margfaldazt frá valdatímum Taliban. Morðglaðir herstjórar vaða uppi um allt land og hafa geðþótta sinn fyrir lög og reglu. Frá sjónarmiði vestræns þjóðskipulags er Afganistan dæmi um misheppnaða íhlutun Vesturlanda. Þótt George Robinson, framkvæmdastjóri Atlantshafsbandalagsins, hafi tekið vel í tillögu Powell, er vafasamt, að bandalag, sem er í sárum vegna yfirgangs Bandaríkjanna, eigi að taka þátt í ábyrgð á misheppnuðu ævintýri þeirra í Afganistan.