Það er fleira en gráðugir forustumenn stjórnmálanna, sem bakar fólki gremju um þessar mundir. Vætutíð síðsumarsins á Suðvesturlandi hefur orðið drjúgt umræðuefni. Sérfræðingar hafa svarað spurningum um breytingar á eðli veðurfarsins og sagt þær vera staðreynd.
Djúpum lægðum hefur fjölgað yfir norðanverðu Atlantshafi á þessum síðasta áratug aldarinnar, einkum að vetrarlagi. Meðalþrýstingur á Raufarhöfn hefur til dæmis verið níu millibörum lægri en meðalþrýstingur viðmiðunartímabils þriggja næstu áratuga þar á undan.
Sumir sérfræðingar hafa gert því skóna, að þessar miklu lægðir hafi stuðlað að straumi hlýsjávar norður með Noregi og inn í Barentshaf, þar sem lífsskilyrði þorsks hafi snögglega batnað. Og augljóst er, að nytjafiskar eru margir afar næmir fyrir hitastigi sjávar.
Jafnvægi hita og kulda í sjónum er sérstaklega mikilvægt úti fyrir Norðurlandi, þar sem mætast heitur og kaldur sjór. Þar eru uppeldisstöðvar flestra botnfiskstofna, þar sem þorskurinn skiptir mestu, og mikilvæg ætissvæði uppsjávarfiska á borð við loðnu og síld.
Þar virðist kaldi og líflausi sjórinn að norðan hafa verið að sækja fram á undanförnum árum, hvort sem það er eða er ekki afleiðing af breyttum straumum, sem gætu átt upptök sín í breyttu ferli lægða á Atlantshafinu. Þessi atriði hafa svo bein áhrif á lífsskilyrði okkar.
Sem frumframleiðsluþjóð og hálfgerð þriðja heims þjóð skipta straumar vinda og sjávar okkur miklu máli. Lífsskilyrði okkar eru nátengd afkomu sjávarútvegs og landbúnaðar. Við höfum pólitískt hafnað því að leita efnahagsgrunns í öðrum og nýrri atvinnugreinum nútímans.
Brýnt er, að við fylgjumst með þessum breytingum og kenningum sérfræðinga um orsakir þeirra og afleiðingar. Að einhverju leyti kunna þær að stafa af mannavöldum, svo sem sjá má af umræðunni um minnkun ózonlagsins og hækkun meðalhita á norðurhveli jarðar.
Náttúrulegar og óviðráðanlegar orsakir á borð við eldgos eru áreiðanlega meiri mengunarvaldar en maðurinn. Þátttaka hans í breytingum á aðstæðum kann þó að geta verið kornið, sem fyllir mælinn. Við höfum hliðstætt dæmi hér á landi frá gróðureyðingu tíu alda mannvistar.
Fyrir og eftir landnám hömuðust náttúruöflin á Íslandi. Hraun brunnu og öskulög lögðust yfir landið, svo sem sjá má af jarðvegssýnum. Samt var landið allt viði vaxið milli fjalls og fjöru og samt gerðu menn þjóðveldisaldar til kola uppi á Kili. Landið var í jafnvægi.
Kornið, sem fyllti mælinn, var maðurinn með sauðkind sinni og öxi. Jafnvægi náttúrunnar hefði haldizt, þrátt fyrir eldgos og óáran, ef Ísland hefði ekki byggzt fólki, sem stundaði sauðfjárrækt. Það var nauðsynleg og nægileg forsenda fyrir gróðureyðingu síðustu tíu alda.
Við getum yfirfært þessa reynslu á erfiðleika, sem kunna að steðja að okkur með loftvindum og hafstraumum. Við tökum raunar þátt í fjölþjóðlegu og alþjóðlegu samstarfi um að draga úr skaðlegum áhrifum mannsins á jafnvægi náttúrunnar í heiminum yfirleitt.
Til dæmis höfum við undirritað samninga um skipulega minnkun freons í kælitækjum. Við stóðum okkur vel í fyrstu, en höfum dregizt aftur úr upp á síðkastið. Okkur ber því nú að stefna að því að standa okkur betur á öllum sviðum, sem stuðla að jafnvægi náttúrunnar.
Bezt er að ganga lengra og hætta pólitískri andúð okkur á því að láta atvinnuvegi framtíðarinnar leysa frumframleiðsluna af hólmi sem helztu lífsbjörg okkar.
Jónas Kristjánsson
DV