Náttúruóbeit

Greinar

Nokkur hætta er á, að aukið verði við byggð á vestanverðu Seltjarnarnesi og lagður hringvegur um nesið út fyrir Nesstofu. Bæjarstjóri Seltjarnarness heldur fast í slíkar hugmyndir, sem eru í aldarfjórðungsgömlu og gersamlega úreltu aðalskipulagi höfuðborgarsvæðisins.

Nú á tímum hefur náttúruvernd öðlast stærri sess í hugum fólks en var fyrir aldarfjórðungi. Þungavigtarfólk í stjórnmálaflokki bæjarstjórans hefur skorið upp herör gegn áformum hans um hringveg og aukna byggð við Nesstofu og lagzt á sveif með minnihlutanum.

Þótt margt hafi verið vel gert í bæjarmálum Seltjarnarness á rúmlega aldarfjórðungs ferli bæjarstjórans, má undanskilja einn málaflokk. Það er náttúruvernd, sem af einhverjum óskýrðum ástæðum hefur farið fyrir brjóstið á honum. Um það eru því miður mörg dæmi.

Nýlega lét bæjarstjórinn setja svokallaðan varphólma í Bakkatjörn, sem er á náttúruminjaskrá. Hann gerði það án þess að leita umsagnar viðkomandi bæjarnefndar og án sérfræðilegrar aðstoðar. Afleiðingin er töluvert rask, sem líklegt er, að hafi skaðleg áhrif á fuglalíf.

Ekki alls fyrir löngu lét bæjarstjórinn ýta jarðvegi yfir setlög og steingervinga frá síðjökultíma við Svartabakka. Þessi setlög voru á náttúruminjaskrá og eru dæmi um, að náttúra, sem er á náttúruminjaskrá, virðist fara sérstaklega í taugar bæjarstjórans.

Í fyrra lét bæjarstjórinn ýta jarðvegi yfir skógræktarreit Kvenfélags Seltjarnarness vestan við íþróttavöll bæjarins. Um þetta hafði hann engin samráð við neinn, ekki frekar en núna, þegar hann lætur aka hundruðum hlassa af mold í sjóvarnargarð við Norðurströnd.

Bæjarstjórinn hefur leikið Valhúsahæð mjög illa. Þar voru áður jökulsorfnar klappir, náttúrulegur gróður og útsýni um allan sjóndeildarhinginn. Nú hefur öllu verið umturnað á hæðinni, reist þar hús og mannvirki, og komið fyrir íþróttavelli, sem nánast aldrei er notaður.

Árásir bæjarstjórans á náttúruna beinast nú að svæðinu milli Nesstofu og Gróttu. Þar hefur verið fölbreytt líf fjörufugla og votlendisfugla, sem er á undanhaldi vegna aukinnar byggðar. Þarna hafa verið æðarfugl, maríuerla, þúfutittlingur, tjaldur og músarrindill.

Seltjarnarnes er í hópi þeirra sveitarfélaga, sem hæst hlutfall hafa húsa og gatna af heildarflatarmáli. Bæjarfélaginu ber engin þjóðfélagsleg skylda til að halda áfram að þenja út byggð í því takmarkaða rými, sem enn er eftir. Nægar byggingalóðir eru í nágrannabæjunum.

Alvarlegt ástand umhverfismála á Seltjarnarnesi er ekki bæjarstjóranum einum um að kenna. Kjósendur bera ábyrgð á honum og hafa látið framkvæmdagleði hans möglunarlítið yfir sig ganga. Seltirningar sem heild eru samsekir í slysunum, sem hér hefur verið lýst.

Nú eru sem betur fer að koma í ljós merki þess, að spyrnt verði við fótum. Bæjarstjórinn hefur loksins gengið of langt gegn náttúruvernd og klofið sinn eigin stjórnmálaflokk. Búast má við, að meirihluti kjósenda á Seltjarnarnesi sé andvígur frekara raski hans.

Tímarnir hafa breytzt síðan bæjarstjórinn gerðist einræðisherra á Seltjarnarnesi fyrir rúmum aldarfjórðungi. Þegar einræðisherrar hætta að geta lagað sig að nýjum tímum og nýjum áherzlum, getur komið brestur í einræðið, svo sem nú hefur orðið á Seltjarnarnesi.

Vonandi leiðir innanflokksuppreisnin á Seltjarnarnesi til þess, að í eitt skipti fyrir öll verði komið í veg fyrir frekari náttúruspjöll af hálfu bæjarstjórans.

Jónas Kristjánsson

DV