Náttúran er okkur nákomnari en flestum öðrum auðþjóðum. Eldgos og jarðhiti, jöklar og stórfljót, neðansjávarhryggir og hafstraumar eru þættir í lífi okkar og atvinnuháttum, sögu okkar og þjóðvitund. Samt eigum við ekki frambærilegt náttúruminjasafn, náttúrusögusafn, náttúruvísindasafn.
Sagan er ofin sambúð við óblíða náttúru. Þjóðminjar hafa lengi við tímasettar eftir öskulögum. Jökulfljót hafa ætíð verið hindrun í vegi samgangna og verzlunar. Ætíð lifðu forfeðurnir á fiski úr sjó. Samt eigum við ekki frambærilegt náttúruminjasafn, náttúrusögusafn, náttúruvísindasafn.
Náttúran er líka mikilvæg í nútíma okkar, ekki bara í sjávarútvegi og landbúnaði, heldur einnig í orkufrekum iðnaði og hitaveitum. Náttúran er forsenda fyrir sérstöðu íslenzkra atvinnuhátta. Samt eigum við ekki frambærilegt náttúruminjasafn, náttúrusögusafn, náttúruvísindasafn.
Ekki má gleyma atvinnuvegi, sem einna mest hefur þanizt út, ferðamannaþjónustunni. Viðskiptamenn hennar hafa almennt meiri áhuga á náttúrunni heldur en þjóðinni sjálfri. Samt getur hún ekki vísað ferðamönnum í neitt frambærilegt náttúruminjasafn, náttúrusögusafn, náttúruvísindasafn.
Við erum upptekin af sögu okkar, höfum endurreist safn um þjóðminjar og innréttað safn um rígmont okkar í gamla Landsbókasafninu. En við felum náttúruminjasafn okkar í kössum í nokkrum kompum í húsakynnum Náttúrufræðistofnunar einhvers staðar í Sveins Egilssonarhúsinu við Hlemmtorg.
Þangað er hvorki hægt að vísa neinum ferðamanni né neinu skólabarni. Allar aðrar þjóðir en Íslendingar eiga sitt glæsilega náttúrusafn, sem er hluti kerfisins. Sú ein þjóð, sem mest allra þjóða hefur mótazt af náttúru landsins, á ekkert frambærilegt safn til að sýna sjálfri sér og öðrum.
Ferðamannaþjónustan á að kalla á náttúrusafn í Reykjavík, sjávarútvegurinn og landbúnaðurinn eiga að kalla á náttúrusafn, orkuiðnaðurinn á að kalla á náttúrusafn. Stjórnmálamenn eiga að slá keilur með að kalla á náttúrusafn og fylgja kröfunni eftir að sómasamlegum leiðarenda.
Lóð er til undir náttúrusafn á háskólalóðinni næst við náttúrudeildarhúsið nýja. Ríkisstjórnin ætti að láta gefa þjóðinni slíkt safn, til dæmis fyrir hluta af gróðanum af sölu Símans. Björn Bjarnason hafði alls engan áhuga á slíku safni og við vitum ekki um Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur.
Núverandi ástand þessa máls er til háborinnar skammar fyrir þjóðina, atvinnuvegina, stjórnmálamennina og landsfeðurna. Það niðurlægir okkur líka fyrir útlendingum, sem hingað koma.
Jónas Kristjánsson
DV