Nauðsynleg millifærsla.

Greinar

Fólkið, sem ekur um göturnar á nýlegum bílum, er bara venjulegt fólk úr ýmsum stéttum og störfum í þjóðfélaginu. Og fólkið, sem flykkist í sólarlandaferðir, er heldur ekkert auðfólk, heldur eins og hver annar í þjóðfélaginu.

Mikill meirihluti þjóðarinnar hefur vel til hnífs og skeiðar, þrátt fyrir rýrða afkomu. Við sáum þetta á jólavertíðinni. Og við sjáum þetta daglega allt í kringum okkur. Fólk barmar sér að vísu, en það ræður við vandann.

Þessi þorri þjóðarinnar þarf ekki nauðsynlega á 4% til 6% kauphækkun að halda. Að minnsta kosti ekki á meðan lífskjör stefna í óefni hjá fátækasta hluta þjóðarinnar, sem ef til vill telur um tíunda hvern borgara.

Því miður er vandi undirstéttarinnar þess eðlis, að hann verður ekki leystur með því að rugla launastiga meira en gert er ráð fyrir í tillögum ríkisstarfsmanna og gagntillögum fjármálaráðuneytisins undanfarna daga.

Ekki er heldur nokkur leið að ætlast til, að ríkið, fyrir hönd skattgreiðenda, leggi út fyrir mismuninum. Hugmyndir um að nota hluta söluskatts í afkomutryggingu eru marklausar, ef ekki er um leið bent á sparnað á móti.

Eina færa leiðin til að lina vandræði einstæðra foreldra og barnmargra foreldra, sem er langstærsti hluti lágstéttarinnar, er að færa fé til þess frá venjulegu fólki, sem hefur til hnífs og skeiðar, þrátt fyrir kjaraskerðingu.

Slíka millifærslu getur ríkið tekið að sér með því að breyta niðurgreiðslum að hluta eða öllu í fjölskyldubætur af einhverju tagi. Slík millifærsla kostar ríkissjóð ekki neitt og hún ruglar ekki heldur mun á launatöxtum.

Niðurgreiðslur eiga á þessu ári að nema tæpum milljarði króna. Ef þær væru lagðar niður, mundu nokkrar vörur hækka í verði, þar á meðal kindakjöt, rjómi og smjör, það er að segja vörur, sem ekki eru mikið á borðum fátækra.

Verðhækkun þessara afurða mundi éta upp hluta af prósentuhækkun launa, sem um verður samið í yfirstandandi kjaraviðræðum. Fólk getur þá, ef það vill, hliðrað til neyzluvenjum sínum til að eyða áhrifum verðhækkunarinnar.

Auðvitað er hætt við, að rétt verð á ofsadýrum afurðum hins hefðbundna landbúnaðar kúa og kinda mundi draga úr sölu þeirra. Menn mundu sjá betur en áður, að framboð þessara rándýru afurða er ekki í neinu samhengi við þarfir.

Ef við ímyndum okkur, að 40.000 börn séu í landinu og að ríkissjóður greiddi 12.000 krónur með hverju barni á ári, án tillits til fjárhagsaðstæðna foreldra, mundi samt verða afgangs helmingur niðurgreiðslnanna til annarra þarfa, til dæmis skattalækkunar.

Slíkar fjölskyldubætur hafa áður verið reyndar hér á landi og voru einfaldar í meðförum, einkum af því að ekki þurfti að velja, hverjir njóta skyldu og hverjir ekki. Sérstakt val leiðir hins vegar til mistaka og misnotkunar.

Í fjölskyldubótum felst þátttaka þjóðfélagsins í hinum mikla kostnaði, sem foreldrar hafa af börnum. Þessi þátttaka er ekki mikil, en auðveldar foreldrum að lifa á kjörunum, sem atvinnulífið getur boðið láglaunafólki.

Deila má um réttmæti slíkrar þátttöku. En hún er þó himinhátt skynsamlegri en árlegur milljarður í niðurgreiðslur, sem skekkja vöruverð og atvinnulíf. Og um leið mundu fjölskyldubætur lina alvarlegasta böl líðandi stundar, hina sáru fátækt mitt í velsældinni.

Jónas Kristjánsson.

DV