Nauðugir viljugir

Greinar

Við verðum ekki bara aðilar að Evrópska efnahagssvæðinu, heldur verðum við einnig fyrr eða síðar aðilar að Evrópusamfélaginu sjálfu, þótt það sé meingallað og hvimleitt fyrirbæri. Við fáum engan veginn ráðið við segulmagnað aðdráttarafl hins stóra markaðar í Evrópu.

Samtök atvinnurekenda auglýsa um þessar mundir stuðning sinn við Evrópska efnahagssvæðið. Þau leggja áherzlu á efnahagslegan ávinning af þátttöku í þessu markaðssvæði, sem aðrar þjóðir Fríverzlunarsamtakanna líta á sem biðstofu aðildar að Evrópusamfélaginu.

Þorri utanríkisviðskipta okkar er við ríkin, sem eru aðilar að Evrópska efnahagssvæðinu og eru ýmist aðilar að Evrópusamfélaginu eða hafa sótt um slíka aðild. Við munum fylgja í humátt á eftir þessum ríkjum, þótt það skerði sjálfstæði okkar enn frekar en þegar er orðið.

Helzta von okkar er, að atlaga Dana að fyrirhugaðri Maastricht-stjórnarskrá Evrópusamfélagsins, tregur stuðningur Frakka við hana og greinileg óbeit Breta muni leiða til tvískiptingar Evrópusamfélagsins í vægari Rómarhluta og harðari Maastricht-hluta.

Við eigum ekki erindi í þann aukna pólitíska samruna Evrópu, sem felst í Maastricht-stjórnarskránni. Rómar-stjórnarskráin gamla er nógu bölvuð, en er samt sennilega það skásta fyrir okkur í þungri undiröldu viðskiptahagsmuna, sem ber okkur til Evrópu.

Um þessar mundir bendir margt til, að Suður-Evrópa, Þýzkaland og Niðurlönd gangi til nánara samstarfs innan Evrópusamfélagsins að frönskum miðstýringarhætti, en engilsaxneskur og norrænn hluti þess þróist með meiri þjóðríkisstefnu og markaðshyggju.

Við viljum ekki renna inn í evrópska þjóð. Við höfum enga aðra afsökun fyrir tilvist okkar á jörðinni en þá að kunna íslenzku og eiga forfeður, sem hafa staðið vörð á þessari eyju í þúsund ár. Við getum ekki svikið það hlutverk fyrir mola af borðum Evrópumanna.

Það, sem okkur vantar í Evrópu, er fyrst og fremst frjáls markaður og aftur frjáls markaður fyrir afurðir okkar. Á móti verðum við að gefa Evrópu frjálsan aðgang fyrir afurðir sínar, enda mundum við græða á að eiga kost á mun ódýrari landbúnaðarvöru frá útlöndum.

Því er svo ekki að leyna, að til viðbótar mundum við hafa mikinn hag af því að verða að beygja okkur undir evrópskar leikreglur, í stað þess að þurfa að sæta sífelldum geðþóttaákvörðunum meira eða minna óhæfra ríkisstjórna, sem eru að fara með Ísland fjandans til.

Þrátt fyrir slíka kosti megum við ekki gleyma því, að Evrópusamfélagið er fyrst og fremst viðskiptalega ofbeldishneigt og siðblint samstarf mandarína í Bruxelles og þrýstihópa risafyrirtækja Evrópu um að verjast gegn umheiminum og hlaða tollmúra gagnvart honum.

Við höfum fengið að finna fyrir hrammi Evrópusamfélagsins í viðskiptum og eigum að vita, hversu harðdrægt það er. Með því að standa ekki lengi fyrir utan, heldur fara inn fyrir, er líklegt, að mál okkar fái heldur mildari umfjöllun en þau hafa fengið hingað til.

Vangaveltur af þessu tagi skipta máli einmitt um þessar mundir, því að við eigum enn kost á samfloti með Norðmönnum, Finnum og Svíum inn í Evrópusamfélagið í stað þess að bíða eftir Tékkum, Pólverjum og Ungverjum, sem vafalaust fá lakari samninga síðar.

Ef við teljum okkur tefla betur við skrímslið innan þess en utan, eigum við að drífa okkur inn sem hluti af Norðurlandapakka, en ekki bíða eftir Austur-Evrópu.

Jónas Kristjánsson

DV