Naustið er svo mikið listaverk, að húsfriða ætti innréttingarnar og setja á þjóðminjaskrá. Hvorki fyrr né síðar hefur tekizt að búa til annað eins andrúmsloft á opinberum samkomustað hér á landi. Þann árangur þarf að vernda.
Laga þarf nýju innréttingarnar
Breytingarnar, sem fylgt hafa stækkun veitingasalarins, hafa tekizt misjafnlega vel, þótt reynt hafi verið að fylgja hinum upprunalega stíl. Nýju básarnir, veggirnir og loftið líkjast nægilega því, sem fyrir var. En lausu stólarnir eru ekki hinir réttu Nausts-stólar. Og hvers vegna var ekki haldið tryggð við fiskabeinsmynztrið í parkettinu? Það er smekkleysi að skipta um stíl í miðju gólfi.
Einna mest uppáþrengjandi stílrofið er þó útskotið, sem hefur verið byggt, þar sem áður var einfaldur skenkur. Skárra hefði verið að láta það ekki ná upp í loft, svo að það liti áfram út eins og skenkur, en ekki eins og útihús. Með varfærni mætti laga þetta.
Hina nýju, hvítu postulínsfugla og ljósa veggdiska ætti að vera auðvelt að fjarlægja. Þeir koma eins og skrattinn úr sauðarleggnum. Hins vegar hefur grindverkið á miðju gólfi fallið vel að stílnum og unnið sér þegnrétt. Sömuleiðis þurrkuðu blómaskreytingarnar yfir grindverkinu. Vandræði loftlugtanna mætti leysa með því að hafa hinar gömlu á stjórnborða og hinar nýju á bakborða, í stað þess að skipta við parkett-stílrofið.
Ódýrara í hádeginu
Naustið er eitt fínu og dýru veitingahúsanna í Reykjavík. Þjónustan er góð, í hefðbundnum stíl. Pappírsþurrkur hafa ekki haldið innreið sína í hádeginu. Vínlistinn er vel valinn, hefur að geyma flest nauðsynlegustu vín, þótt stuttur sé. Hinn fasti matseðill er afar hefðbundinn og miðast við, að fastagestir panti sér þær steikur, sem þeir hafa alltaf pantað sér.
Í hádeginu gefst svo kostur á seðli dagsins, þar sem fiskréttir fá að blómstra, ekki bara lúða og skarkoli, heldur líka skötuselur og karfi. Þá er einnig boðið upp á hálfa skammta, sem gera bisness-lönsinn ódýran þeim, sem ekki hafa mikla lyst á þeim tíma dags.
Karríristaður skötuselur með ristuðum ananas- og eplaskífum, soðnum kartöflum og karrísósu á seðli dagsins var fyrirtaks matur, hæfilega lítið soðinn og hélt hráefnisbragði, þótt karrí sé bragðsterkt krydd.
Sítrónusoðin rauðsprettuflök með soðnum kartöflum og bráðnu smjöri, einnig á seðli dagsins, voru hins vegar beinlínis bragðvond, sennilega ekki nógu ný. Og kartöflurnar voru lakari en hinar, sem fylgdu skötuselnum, hafa sennilega verið hálftíma lengur í pottinum.
Með þessum réttum fylgdi mjög gott hrásalat, sem fólst aðallega í baunaspírum og ísbergi, vættu í olíu, með smávegis af tómatbitum og gulri papriku í bland. Þetta var dæmi um, að einfalt hrásalat er oft bezt.
Sumt fer ei saman
Ofnbakaður graflax með eggjasósu og ristuðu brauði var frekar lítið grafinn og hafði lítið dillbragð, en stór dillkvistur fylgdi með. Ostþakið var yfirgnæfandi, en ágætt bragð var að laxinum, þegar þakið hafði verið skafið brott.
Ristaður hörpuskelfiskur með hvítlauk og tómat var meyr og fínn út af fyrir sig. Ennfremur var tómatmaukið með papriku og lauk gott á bragðið, en of bragðmikið fyrir hörpuskelfiskinn, svo að borða varð réttinn í tvennu lagi.
Hrásalatið með aðalréttunum í þetta sinnið var ekki eins gott og það, sem áður var lýst. Sérstaklega spillti hið mikla magn af amerískri sósu, sem útilokað var að forðast.
Eldsteikt, sinnepsgljáð nautafillet-steik var ágæt, en ekki sérlega bragðmikil. Sinnepið var þó hæfilega vægt. Með steikinni var borið nokkuð mikið soðið brokkál og linur, bakaður tómatur, bökuð kartafla, þurrkaðir sveppir og ágæt rjómasósa með votti af villibráðarbragði.
Lambapiparsteik með ristuðum sveppum og rjómapiparsósu var sérstaklega góð og bragðmikil. Henni fylgdi nokkurn veginn sama, staðlaða meðlætið og nautinu, þar á meðal sama villibráðarsósan.
Bláber og skyr bezt
Vanilluís með súkkulaðispónum og Cointreau-líkjör var mjög góður. Enn betri var bláberjasorbet með skyri, frumlegasti réttur matseðilsins, með sérlega bragðljúfu skyri og ferskum, íslenzkum bláberjum, eiginlega hápunktur máltíðarinnar. Gott kaffi var borið fram með konfektmolum.
Flest nöfnin á matseðlinum eru gamalkunnug, svo sem reyktur lax, rækjukokkteill, frönsk lauksúpa, beikonvafinn skötuselur, grillaðir humarhalar, sjávarréttadiskur, ensk buffsteik, mokkaís, djúpsteiktur camembert og fleira þess háttar, sem er á meira en öðrum hverjum matseðli borgarinnar.
Í hádeginu er miðjuverð súpu og aðalréttar af seðli dagsins 335 krónur og aðeins 275 krónur, ef tekinn er hálfur skammtur af aðalréttinum. Á fastaseðli er verðið annað. Miðjuverð forrétta er þar 320 krónur, súpa 140 krónur, fiskrétta 390 krónur, kjötrétta 580 krónur og eftirrétta 160 krónur. Þriggja rétta veizla af því tagi með hálfri flösku af víni á mann og kaffi ætti að kosta um 1070 krónur á mann, sem er í dýrasta verðflokki, meira að segja heldur dýrara en hafði verið í Kvosinni.
Naustið þarf að lagfæra nýju innréttingarnar og setja meira fjör í matseðilinn. Í eldhúsinu er margt ágætlega gert, svo að reikna má með, að það geti staðið undir meira hugmyndaflugi en kemur fram á seðlinum, alveg eins og farið er að gerast á öðrum veitingahúsum í sama klassa.
Jónas Kristjánsson
DV