Nefndir á nefndir ofan

Punktar

Forsætisráðherra upplýsti áðan, að vel gengi að efna heimsmets-loforðið um tékka í pósti. Skipaðar hefðu verið ótal nefndir, sem síðan hefðu skipað sér undirnefndir og yfirnefndir af ýmsu tagi. Nefndirnar hefðu haldið ótal fundi og mundu væntanlega halda fleiri fundi. Frétta mætti vænta af árangri sumra af þessum fundum. Erfitt er að henda reiður á, hvenær það muni vera, enda er tímaskilningur framsóknar sérstæður og teygjanlegur. Víst er þó, að tékkinn kemur ekki í pósti að sinni. En reynt verður að kreista þrotabú bankanna og búa til keðjur innistæðulausra ávísana, auðvitað á kostnað skattgreiðenda.