Nei þýðir já

Greinar

Enn einu sinni hefur íslenzkur dómari sent þolendum nauðgunar þau skilaboð, að þeir skuli ekki kæra. Að þessu sinni eru skilaboð dómarans skýr: Nei þýðir já. Þau ganga þvert á skilaboð, sem sett voru á plaköt fyrir verzlunarmannahelgi og sögðu: Nei þýðir nei.

Efnislega vefengdi dómarinn ekki, að atburðurinn hafði átt sér stað og að þolandinn hafði sagt nei. Hins vegar sagði dómarinn, að ekki hefðu fundizt ofbeldismerki á fatnaði eða líkama þolandans og þess vegna hefði neiið þýtt já og þetta væri hið bezta mál.

Með þessum eina dómi hefur verið eyðilagður hugsanlegur árangur af plakötunum, sem sett voru upp í sumar. Staðfest er, að réttarkerfið lítur svo á, að ekki sé nóg að tala íslenzku í svona tilvikum, heldur verði fólk að lenda í barsmíðum, svo að sjái á líkama og fötum.

Dómurinn kemur í röð margra annarra slíkra, þar sem dómarar gera kærendum nauðgana lífið svo leitt, að þeir sjá eftir kærunni. Þetta er hluti af þeirri útbreiddu lífsskoðun í karlrembuheimi dómstóla, að kynferðislegt ofbeldi sé bara eðlilegur hluti af lífsins gangi.

Einkum er þetta áberandi í úrskurðum vegna ofbeldis gegn börnum. Dómarar neita til dæmis að taka mark á framburði barna. Og séu málsatvik slík, að dómur sé ekki umflýjanlegur, nota dómarar ekki tólf ára refsiheimild, heldur þriggja mánaða skilorðsbundið fangelsi.

Dómarar eru í sama báti og lögreglumenn, einkum hjá Rannsóknalögreglu ríkisins, sem er illræmd karlrembustofnun. Konur, sem ekki sætta sig við nauðgun, verða raunar að sæta þrefaldri nauðgun. Fyrst er þeim nauðgað á vettvangi, síðan á varðstofu og síðast í dómsal.

Þessi gangur mála hefur nokkrum sinnum að undanförnu verið staðfestur sem eðlilegur í Hæstarétti. Þar hefur gjarna verið dregið úr refsingum, sem ákveðnar voru í héraði. Hæstiréttur lítur yfirleitt ekki á líkamlegt ofbeldi til jafns við fjárhagslegt ofbeldi.

Hæstarétt skipa afturhaldssamir yfirstéttarmenn, sem líta á innanstéttarofbeldi lágstéttarinnar sem ómerkilegan atburð, en hafa þeim mun meiri áhuga á verndun peningalegra verðmæta yfirstéttarinnar. Fyrir þeim er tóbaksþjófur meiri afbrotamaður en nauðgari.

Dómarar taka ekki mark á gildandi lögum um nauðganir, einkum á refsingarákvæðum þeirra. Þeir taka ekki mark á stefnu löggjafans á síðustu árum, sem hefur falið í sér hert viðurlög. Og þeir taka ekki mark á siðalögmálum nútímans. Þeir eru frosnir í gömlum karlrembuheimi.

Nauðgunarmál eru erfið. Tæknilega er ekki auðvelt að afla sönnunargagna. Rannsóknamenn eru óstjórnlega áhugalitlir um framvindu þeirra. Og síðan eru dómararnir eins og hér hefur verið lýst. Þetta veldur því, að konur telja ekki þýða að kæra nauðgun og gera það ekki.

Punkturinn yfir i-inu felst svo í viðbrögðum velferðarkerfisins. Nauðgarinn fær ókeypis læknis- og sáluhjálp, en þolandinn verður sjálfur að borga hluta af sinni læknis- og sáluhjálp. Og hann fær aldrei þær bætur, sem nauðgarinn á að borga honum. Ríkið ábyrgist þær ekki.

Mikilvægt er, að Alþingi bylti ófremdarástandi nauðgunarmála í ríkiskerfinu, eins og það hefur birzt þjóðinni á undanförnum misserum. Alþingi verður þegar í haust að senda steinrunnum rannsóknamönnum, dómurum og velferðarstjórum þau skilaboð, að nú sé nóg komið.

Alþingi þarf í haust með nýjum lögum að snúa við þeirri þróun, að hinir steinrunnu magni vantrú almennings á kerfinu og fyrirlitningu hans á þjóðskipulaginu.

Jónas Kristjánsson

DV