Neita að fullorðnast

Greinar

Kannanir leiða í ljós, að tveir þriðju hlutar þjóðarinnar fylgjast ekki með íþróttaefni og fjórir þriðju hlutar fylgjast ekki með fótbolta. Samt breiðir boltinn úr sér á síðum blaða. Beinar útsendingar eru dýrasta efni ljósvakans og ryðja oft fréttum og öðru föstu dagskrárefni til hliðar.

Boltinn, einkum fótboltinn, er orðinn svo fyrirferðarmikill í lífi sumra áhangenda, að þeir skilgreina tilveru sína beinlínis á grunni hans. Þeir eru ekki fyrst og fremst Reykvíkingar, framsóknarmenn, sölustjórar eða heimilisfeður, heldur takmarkalausir stuðningsmenn Manchester United.

Þetta verður á endanum eins og í Miklagarði á miðöldum. Í stað þess að verjast ágangi Feneyinga og Tyrkja voru borgarbúar uppteknir af ágreiningi milli stuðningsmanna græna og bláa liðsins í hestvagnakappakstri og enduðu með því að berjast á götunum eins og fótboltabullur nútímans.

Mikligarður hrundi, en paðreimurinn stendur enn til minnis um borgarlíf, sem beið lægri hlut í lífsbaráttunni, af því að borgarbúar voru að horfa á barnalegan leik, sem leysti alvöru lífsins af hólmi. Meðan Feneyingar eða Tyrkir klifu borgarmúrana veifaði skríllinn bláu og grænu á paðreiminum.

Þótt ofsatrúarmenn fótboltans séu tiltölulega fámennur minnihluti Íslendinga eins og annarra Evrópumanna, hefur þeim tekizt að vekja slíkan áhuga fjölmiðla á leiknum, að ætla mætti, að blóðug styrjöld eða kosningabarátta geisi á leikvöllum fótboltafólks, að ímyndunin sé full alvara.

Will Buckley, fótboltafréttaritari brezka blaðsins Observer, hefur skrifað bók og grein, þar sem hann biðst afsökunar á löngum ferli sínum. Hann segir, að fótbolti sé barnaleg íþrótt, sem hafi farið úr böndum. Sérstaklega sé afleit umfjöllun fjölmiðla, full af barnalegum ýkjum og bulli.

Hann segist hafa tekið viðtöl við fótboltahetjur í fimmtán ár og enginn þeirra hafi haft neitt vitrænt að segja. Þessi viðtöl hafi verið tímasóun til að fylla fótboltasíður blaðsins. Hann hafi allan þennan tíma verið að þjónusta lífsflótta, flótta lesenda, sem neita að fullorðnast.

Hann furðar sig á, að ábyrgir fjölmiðlar gæli við þá heftingu þroskans, að fólk heldur áfram að haga sér eins og börn fram eftir aldri, neitar að breytast í fullgilda ríkisborgara og stundar í þess stað skjáinn í bland við tómlegt spjall um stór boltabörn á uppsprengdu kaupi.

Buckley telur, að fótboltinn yrði ekki eins leiðinlegur, ef málsaðilar hættu að taka sig alvarlega og gerðu sér grein fyrir, að hann er bara leikur, sem á að meðhöndla sem leik.

Jónas Kristjánsson

DV