Níu netvæn veitingahús
Níu veitingahús á höfuðborgarsvæðinu reyndust í prófun um síðustu helgi hafa frambærilega heimasíðu á veraldarvefnum og gátu svarað borðapöntun sómasamlega á Netinu innan sólarhrings. Það getur varla talizt merkileg netvæðing, þótt miðillinn eigi að henta veitingahúsum, sem geta þannig komið breytilegum matseðlum og verðlagi á framfæri á einfaldan hátt. Klukkan 15.3016 á sunnudaginn fór tölvupóstur með fyrirspurn um borðpöntun kl. 20 á mánudagskvöldi til allra veitingahúsa, sem höfðu skráða heimasíðu á Veitingavefnum (veitingavefurinn.is).
Listacafé fyrst til svara
Fyrst til svara varð Listacafé við Engjateig og skömmu síðar Salatbarinn hjá Eika í Fákafeni. Þriðja í röðinni var Apótekið við Pósthússtræti, sem öll sendu tölvupóst til baka á sunnudeginum. Á mánudagsmorgni komu svör í þessari röð, frá Skólabrú við Kirkjutorg, Argentínu við Frakkastíg, Hótel Borg við Pósthússtræti, Grand Hótel við Sigtún og Creole Mex við Laugaveg 178. Eldhúsið í Kringlunni svaraði símleiðis um svipað leyti. Önnur veitingahús voru ekki búin að bregðast við rúmum sólarhring eftir pöntun og tveim klukkustundum fyrir áætlaðan matartíma eða áttu við annan vanda að stríða.
Á Netinu í þykjustunni
Engin svör við fyrirspurninni bárust í tæka tíð frá A. Hansen í Hafnarfirði, Einari Ben. í Veltusundi, Kringlukránni í Kringlunni, Rauðará við Rauðarárstíg og Thor í Hafnarfjarðarhöfn, sem öll eru með heimasíðu með tölvupóstfangi fyrir borðapantanir.
Heimasíður Café Bleu í Kringlunni, Hard Rock í Kringlunni, Humarhússins við Lækjargötu, Hótel Holts við Bergstaðastræti, Iðnós við Vonarstræti, Jónatans Livingstone Máfs við Tryggvagötu, Lækjarbrekku við Bankastræti, Naustsins við Vesturgötu, Rex í Austurstræti, Tjarnarinnar við Kirkjutorg og Viðeyjarstofu sýndu ekki matseðil eða tölvupóstfang eða virkuðu alls ekki. Þær lágu alveg niðri hjá Pasta Basta við Klapparstíg og Sommelier við Hverfisgötu, en viðbrögð veitingastjóra Perlunnar voru ótrúlega ókurteis.
13% netvæðing
Niðurstaða prófunarinnar var því sú, að af um sjötíu veitingahúsum á höfuðborgarsvæðinu voru níu, sem höfðu nothæfa heimasíðu með matseðli og verði á Netinu og svöruðu skilmerkilega borðapöntun með ósk um reyklaust svæði og fyrirspurn um, hvort matseðlar og verð á heimasíðunni væru enn í gildi. Þetta er um 13% netvæðing. Sextán önnur hús voru með ófullkomna eða bilaða heimasíðu, þar sem mikið fé hefur farið fyrir lítinn árangur.
Jónas Kristjánsson
DV