New York

Veitingar

Ekki mundu mörg íslenzk veitingahús standast samanburð, ef þau væru flutt til Manhattan. Í þeim hópi væru örugglega Listasafnið á Holti, Þrír Frakkar og Laugaás, hvert í sínum flokki verðs og gæða. Líklega einnig Tjörnin og Primavera, en ekki miklu fleiri, kannski Rex og Játvarður á Akureyri. Þótt fleiri séu góð, þá stæðust þau ekki samkeppnina fyrir vestan, þar sem margir berjast um hituna á hverju sviði.

Skemmtilegra er að fara út að borða í New York en Reykjavík, af því að fjölbreytnin er meiri í gæðum og verði, hefðum og andrúmslofti. Raunar er borgin við Hudson tekin við af borginni við Signu sem heimsins mesta gósenland matgæðinga, af því að París er sérfrönsk, en Manhattan suðupottur heimskringlunnar allrar, þar á meðal fjarlægra Austurlanda, sem geta kennt okkur margt í matargerðarlist.

Í Reykjavík væri ekki markaður fyrir Kóreustað á borð við Hangawi, þar sem gestir sitja á sokkaleistunum á gólfinu og snæða grænmetisrétti í nánast guðrækilega austrænu umhverfi. Og hér heima er aðeins boðið upp á daufa eftirlíkingu af japönsku sushi, undursamlegum smáréttum úr hráu sjávarfangi, svo sem fást í annarri hverri þvergötu í miðri Manhattan. Hér eru ekki vel stæðir Kóreumenn og Japanir á hverju strái til að halda slíkum stöðum uppi.

Verð er ekki miklu hagstæðara en í Reykjavík. Algengt er á góðum stöðum að þríréttað með kaffi kosti um 36 dali eða 2.500 krónur á mann, en hér færi hliðstætt verð yfir 3.000 krónur. Dýrustu staðir bandarískrar matreiðsluhefðar halda sér á 54 dala eða 3.700 króna verði, sem er lægra en hæsta verð í Reykjavík. Það eru aðeins allra dýrustu frönsku og japönsku húsin, sem sleikja 72 dali eða 5.000 krónur á mann, svipað og allra dýrstu matsalir Reykjavíkur.

Hér er ferskara sjávarfang, en þar er fjölbreytnin meiri. Hér eru menntaðri þjónar og kokkar, en stundum íhaldssamari. Vestan hafs forðast góðir kokkar fitu og feitar sósur og leggja meiri áherzlu á fersk og falleg salöt. Í New York er harðlega bannað að reykja á veitingahúsum, en hér sjást víða ekki einu sinni reyklaus svæði, heldur er tóbaksreyk leyft að spilla matarilmi um allan sal í trássi við reglugerðir.

Ekki þarf að leita uppi sérstaklega dýr veitingahús á Manhattan til að fá betra lambakjöt en okkar bragðdaufa fóðurkálskjöt, sem við ímyndum okkur gott. Og auðvitað er nautakjöt betra á góðum stöðum vestan hafs en á hliðstæðum stöðum hér á landi. Bandarísk steikhús eru enn sem fyrr kapítuli út af fyrir sig.

Veitingahús eru sterkur þáttur í lífi íbúa New York. Þeir borða meira en helming máltíða sinna úr mat, sem eldaður er annars staðar en heima. Þeir fara út að borða oftar en þrisvar í viku að meðaltali og borga meira en 30 dali eða 2.100 krónur í hvert sinn á mann. Þeir halda því betri aga á bransanum heldur en Íslendingar, sem vilja gera annað fyrir peningana sína en borða fyrir þá.

Hástig bandarískrar matreiðslu er á nokkrum stöðum á Manhattan, sem eru að skapa bandaríska klassík, leita víðar fanga en í Frans, losa sig undan franskri formfestu, létta yfirbragð og andrúmsloft, án þess að hvika neitt frá gæðum matreiðslunnar. Þetta er önnur þróun en í Kaliforníu, sem orðin er uppspretta veitingastaða með umbúðir í stað innihalds.

Topparnir eru notalegir staðir á borð við Union Square Café, Gotham Bar & Grill og Grammercy Tavern, sem eru unaðslegri heim að sækja heldur en dýrari draumastaðir á borð við Lucas Carton, Taillevent og Grand Vefour í París. Þess vegna er við hæfi að segja, að Manhattan sé að verða Mekka matargerðarlistar.

Bandarískt kaffi er jafn þunnt og vont sem fyrr, en gott espresso fæst á öllum góðum veitingahúsum. Þunnt gervi-espressó úr hnappavél, sem boðið er víðast hvar í Reykjavík, hef ég ekki séð á veitingastöðum á Manhattan.

Jónas Kristjánsson

DV