Neytendur eru sauðfé

Greinar

Komið hefur í ljós, að neytendur halda áfram að kaupa egg eins og ekkert hafi í skorizt, þótt verð þeirra margfaldaðist í vikunni og Neytendasamtökin hvettu fólk til að hætta að kaupa egg. Frá þessu skýrðu verzlunarstjórar Miklagarðs og Hagkaups hér í blaðinu í gær.

Í Bandaríkjunum stóð fólk einhuga með formanni neytendasamtakanna, þegar hann hvatti það til að svara hækkun nautakjöts með því að hætta að kaupa nautakjöt, þar til annað yrði ákveðið. Eftir tvær vikur hrundi nautakjötsverðið niður fyrir upprunalegt verð.

Í nágrannalöndum okkar láta neytendur ekki bjóða sér samsæri um 30% hækkun og hvað þá 300% hækkun án þess að svara af hörku. Það gildir til dæmis jafnt um danska sem bandaríska neytendur, að þeir eru reiðubúnir að neita sér um vöru til að gæta hagsmuna sinna.

Hér láta neytendur sem egg séu einhver lífsnauðsyn, er þeir geti ekki verið án í einn dag og hvað þá nokkrar vikur. Samt er mataræði Íslendinga með þeim hætti, að hollara væri að draga úr eggjaáti en halda því óbreyttu og bráðhollt væri að fara í langt eggjafrí.

Egg geta stuðlað að auknu kólesteróli, sem er meira hjá Íslendingum en næstum öllum öðrum þjóðum veraldar. Læknar, sem eru sérfræðingar í hjartasjúkdómum, ráðleggja yfirleitt fólki að fara varlega í eggjaáti til að draga úr líkum á bilunum í hjarta- og æðakerfinu.

Hér í blaðinu hefur verið bent á, að egg eru engan veginn nauðsynleg í bakstri. Birtar hafa verið uppskriftir því til stuðnings. Ekkert af þessu hefur fengið neytendur ofan af þeim bjargfasta ásetningi að kaupa alltaf jafnmikið af eggjum, hvað sem þau kosta.

Við aðstæður af þessu tagi er auðvelt að skilja, af hverju máttur neytendasamtaka er minni hér á landi en í nálægum löndum. Augljóst er, hvers vegna hagsmunir neytenda verða hér jafnan að víkja, ef árekstrar verða við sérhagsmuni seljenda vöru og þjónustu.

Engir hafa af þessu meiri hag en umboðsmenn hagsmuna hins hefðbundna landbúnaðar. Þeir eru vanir að umgangast sauðfé heima hjá sér og þeir kunna að umgangast neytendur á sama hátt. Enda verður ekki betur séð en neytendur eigi skilið að vera taldir sauðfé.

Skrifstofa verðlagsstjóra gegnir mikilvægu hlutverki í þjóðfélagi, þar sem neytendur eru eins konar sauðfé. Stofnunin gerir sér þó mun atvinnugreina, er hún fjallar um hagsmuni neytenda. Landbúnaður nýtur mildari meðferðar en aðrar greinar, einkum í lögfræðideildinni.

Ef grunur leikur á verðsamkomulagi venjulegra framleiðenda, er lögfræðingur stofnunarinnar óðar búinn að kæra. Þegar eggjamenn semja um að margfalda eggjaverð, eru þeir beðnir um að koma á stofuna til að ræða, hvort ekki sé hægt að skila hluta þýfisins aftur.

Þar á ofan er eggjamönnum ógnað með sexmannanefnd, sem er ein þeirra stofnana, er mesta ábyrgð bera á því skrímsli, sem landbúnaðurinn er orðinn í þjóðfélaginu. Búast má við, að eggjamenn fagni því á laun, að svo hliðholl nefnd ákveði eggjaverð í landinu.

Allt byggist þetta á, að neytendur hafa ekki bein í nefinu til að fara í taugastríð við þá, sem meðhöndla þá eins og sauðfé. Neytendur hafa í raun hafnað að stjórna sjálfir verði á kjöti og mjólkurafurðum, eggjum og grænmeti í landinu með sjálfsstjórn á innkaupum.

Enn er ekki vitað, hver verður niðurstaða eggjamálsins. En hún mun hafa hliðsjón af, að neytendur hyggjast ekki bera hönd fyrir höfuð sér frekar en fyrri daginn.

Jónas Kristjánsson

DV