Neytendur með í ráðum

Greinar

Þegar bankastjórar og kaupmenn skrifuðu undir samning um bankakortamálið, var þriðji málsaðilinn hvergi sjáanlegur. Neytendur eða samtök þeirra voru ekki aðilar að samningnum eða undirbúningi hans. Varðar efni hans þó þann málsaðila ekki síður en hina tvo.

Bankakortamálið snýst um, hvernig eigi að dreifa kostnaði og sparnaði af nýju greiðsluformi í almennum viðskiptum. Niðurstaðan varð auðvitað, að sá aðili, sem ekki var við samningaborðið, skyldi bera mestan hluta kostnaðarins og fá alls engan hluta af sparnaðinum.

Samkeppnisstofnun hefur lýst þennan samning ógildan og er það vel. Væntanlega verður kallað til Neytendasamtakanna, þegar gerð verður önnur tilraun til að skipta kostnaði og sparnaði af hinum nýju bankakortum, en bönkum ekki leyft að keyra þau áfram á undanþágu.

Neytendur hafa aðgang að kortum, sem þeir bera lítinn kostnað af, svo framarlega sem þeir forðast verzlanir, sem okra á korthöfum með svokölluðum staðgreiðsluafslætti. Þetta eru krítarkortin. Flestar neyzluvöruverzlanir okra ekki á notendum krítarkorta með þeim hætti.

Neytendasamtökin mættu raunar veita neytendum betri fræðslu um, í hvaða búðum er sama verðgildi á kortum þeirra og á seðlum eða ávísunum. Þannig mætti brjóta niður óbeina gjaldtöku kaupmanna, sem í flestum tilvikum er hærri en sem nemur kostnaði þeirra.

Ekki er sjáanleg nein ástæða fyrir handhafa krítarkorta að taka í staðinn upp notkun hinna nýju bankakorta í einhverjum hluta viðskipta sinna. Þeir þurfa að borga afgreiðslugjald af bankakortum, en ekki af krítarkortum. Gjaldið er miðað við verð á ávísanaheftum.

Fólk mun hins vegar smám saman neyðast til að taka upp bankakortin í stað ávísanahefta í þeim viðskiptum, þar sem það notaði áður ávísanir. Ennfremur má búast við, að bankarnir hafi með sér samráð um að þrýsta almenningi frá krítarkortum yfir í bankakort.

Ólöglegur samningur bankastjóra og kaupmanna um bankakort er fyrirtaks dæmi um, að neytendur eru yfirleitt aldrei spurðir neins hér á landi. Þeir eru til dæmis orðalaust látnir bera tólf milljarða kostnað á hverju ári af verzlunaránauð ríkisvaldsins á sviði búvöru.

Ef Alþingi stendur andspænis vali milli hagsmuna framleiðenda og neytenda, velur það undantekningarlaust hagsmuni framleiðenda. Þannig kemur ríkisvaldið einnig fram í fjölþjóðasamningum. Alltaf eru gerðar kröfur fyrir hönd íslenzkra framleiðenda, en ekki neytenda.

Neytendum kæmi bezt, ekki sízt á tímum lágra launa og skorts á vinnu, að hér á landi ríkti almennt innflutnings- og verzlunarfrelsi, lítið sem ekkert hindrað af völdum skattheimtu. Alþingi og ríkisstjórn reyna hins vegar að takmarka þennan aðgang neytenda sem allra mest.

Í þessu andrúmslofti fyrirlitningar á neytendum, sem gegnsýrir yfirstéttina á Alþingi og í ríkisstjórn, er við því að búast, að bankastjórar og kaupmenn telji sig ekki þurfa að kalla á fulltrúa neytenda, þegar þeir semja um að láta neytendur kosta hagræðingu í bankakerfinu.

Samkeppnisstofnun er sá armur ríkiskerfisins, sem helzt hefur það hlutverk að gæta hagsmuna neytenda gegn ofurvaldi sérhagsmuna af ýmsu tagi. Æskilegt er, að stofnunin sjái, hversu mikilvægt er, að neytendur fái fulla aðild að samningum um hin nýju bankakort.

Með ógildingu stofnunarinnar á samningi bankastjóra og kaupmanna hefur myndazt tækifæri til að taka þráðinn upp á eðlilegan hátt, með aðild fulltrúa neytenda.

Jónas Kristjánsson

DV