Þegar Rússar fögnuðu hruni kommúnismans og innreið nýrra stjórnarhátta, voru þeir ekki að fagna lýðræðisformunum, svo sem þrískiptingu valdsins, tjáningarfrelsi, lagaöryggi og markaðsbúskap. Þeir voru að fagna gosi og hamborgurum, síbylju og gervihnattarásum.
Það kom í ljós, að þeir höfðu tekið trú á ímyndir úr sjónvarpi af vestrænum lifnaðarháttum, þar sem fólk virtist ekki þurfa annað fyrir lífinu að hafa en að valsa um fín hús í sápuóperum, segja einnar línu brandara, neyta ruslfæðis og kaupa óþarfan varning.
Kók og hamborgarar komu til Rússlands, svo og aðrar ímyndir úr stjónvarpsauglýsingum. Nokkur hundruð þúsund manns hafa notfært sér þessar meintu guðaveigar, en 250 milljónir manna hafa ekki ráð á því og munu ekki hafa ráð á því um ófyrirsjáanlega framtíð.
Eftir hrun kommúnismans kom enn stærra hrun efnahagslífsins. Við tóku lögmál villta vestursins, þar sem menn hirtu það, sem þeir gátu náð í, sumir álver og aðrir vodkaflösku. Öllu var stolið steini léttara og sett á svartan markað. Lög og réttur voru fótum troðin.
Hámenningin hrundi líka. Rithöfundar, sem voru lesnir á tíma kommúnismans, af því að verk þeirra gengu milli manna í handritum, liggja nú óbættir í bókaskemmum. Fáir vilja lesa fyrrverandi neðanjarðarhöfunda meðan nóg er til af vestrænni og innihaldslausri sápu.
Yfirgnæfandi meirihluti Rússa býr nú við mun lakari kjör en á lokaskeiði kommúnismans. Draumurinn um vestræna lifnaðarhætti reyndist vera tálsýn, framleidd fyrir sjónvarp. Lífið í sápuóperunum og bíómyndunum reyndist ekki vera í tengslum við veruleikann.
Tálsýnin hefur leikið fleiri grátt en Rússa eina. Sömu óra hefur gætt í öðrum löndum Austur-Evrópu, í misjöfnum mæli að vísu og minnst í löndum eins og Tékklandi, þar sem menn vissu meira um vestrænan veruleika, þegar þeir steyptu kommúnismanum af stóli.
Þriðji heimurinn hefur líka haft aukinn aðgang að hinni vestrænu ímynd sjónvarps og kvikmynda. Þar halda tugmilljónir, að frelsi og lýðræði felist í Nike og Pepsi, Levi’s og MacDonalds, Calvin Klein og Kentucky Fried Chicken, Rambó, Madonnu og Disneylandi.
Lýðræði felst samt ekki í rétti til að velja milli tíu tannkremstegunda, sem menn hafa ekki efni á að kaupa. Það felst í ábyrgð og skyldum, sem fólk tekur af herðum fyrrverandi valdhafa, kónga og keisara, einræðisherra og aðalsmanna, og setur á sínar eigin herðar.
Í kjarnalöndum vestursins gætir í vaxandi mæli sama ruglings á veruleika og ímyndum, sem hefur leikið Rússa einna verst allra þjóða. Fólk er að breytast í neyzludýr, sem lætur stjórnast af auglýsingum, vörumerkjum, markaðsbrögðum og skammlífum tízkufyrirbærum.
Íslendingar hafa ekki farið varhluta af ruglinu, svo sem sýna fótanuddtækin og segularmböndin, vörumerkin á fatnaði fólks og almennur áhugi á síbyju og sápuóperum. Fæstir átta sig á, að unnt er að lifa miklu betra og heilsteyptara lífi með því að hafna þessu öllu.
Því meiri neyzludýr, sem fólk verður, þeim mun minna sinnir það borgaralegum skyldum sínum. Fólk samlagast sjónvarpsskjánum og heyrnartólunum. Þannig grefur neyzluþjóðfélagið ýmist undan lýðræðinu eins og hér á landi eða hindrar innreið þess eins og í Rússlandi.
Þegar lýðræðið hrynur, verður það ekki fyrir meintum ytri óvinum, svo sem kommúnisma eða íslam, heldur fyrir sjálfvirkum og óviljandi innri markaðsöflum.
Jónas Kristjánsson
DV