Neyzlusauðir nenna ekki

Greinar

Ef fylgst er með fólki í kjörbúðum, er auðvelt að komast að raun um, að fáir hugsa eins og hagsýnir neytendur. Flestir þrífa hluti úr hillunum án þess að líta á verðið. Og margur er óþarfinn í körfunum, þegar komið er að kassanum. Það er eins og peningar skipti engu máli.

Íslendingar eru of ríkir og of eyðslusamir. Allur þorri manna leyfir sér það, sem honum dettur í hug. Einkaneyzlan er of mikil, enda eru launin of hátt hlutfall af veltu þjóðarbúsins. Ef svo væri ekki, mundu neytendur líklega gera meira af að velta hverri krónu fyrir sér.

Sameiginlegt átak neytenda er næstum óþekkt fyrirbæri hér á landi. Fyrir mörgum árum reyndi félag bifreiðaeigenda að mótmæla benzínhækkun með því að fá íbúa Reykjavíkursvæðisins til að fara einn dag í strætisvagni í vinnuna. Þessi aðgerð mistókst gersamlega.

Ef nautakjöt hækkar um nokkur sent í Bandaríkjunum, setja þarlend samtök neytenda allt í gang. Svo almenn er þátttaka almennings í að neita sér um nautakjöt í þrjár vikur eða lengur, að bráðlega er kjötverðið komið niður fyrir það, sem það var fyrir hækkun.

Í Bandaríkjunum hugsa neytendur eins og sjálfstæðir borgarar, sem neita að láta bjóða sér hvað sem er. Hér eru neytendur líkari þegnum en borgurum og haga sér raunar eins og sauðir. Íslendingar taka bara upp plastkortið og borga nýja verðið, hvert sem það er.

Nú hyggjast Neytendasamtökin kanna, hvort unnt sé að fá íslenzka neytendur til að haga sér eins og alvöruborgarar og neita sér um stundarþægindi í þágu varanlegra langtímahagsmuna sinna sem neytendur. Verður það að kallast töluverð bjartsýni samtakanna.

Tilefnið er ærið. Landbúnaðarskrímslið hefur að undanförnu verið að smíða svipaða einokun í kjúklingum og kartöflum og hefðbundin er orðin í afurðum kúa og kinda. Þegar hefur tekizt að hækka kjúklinga og kartöflur margfalt meira en verðbólgu á stuttum tíma.

Auðvitað ættu neytendur fyrir nokkru að hafa risið upp sem einn maður gegn þessum aðgerðum. Raunar ættu þeir ekki að hafa þurft neytendasamtök til að segja sér, að nú er rétti tíminn til að neita sér um kjúklinga og kartöflur í nokkurn tíma, til dæmis eitt ár.

En gallinn er bara sá, að íslenzkir neytendur hafa hingað til ekki hugsað svona. Sem dæmi um eymd og auðnuleysi þeirra má nefna sjálft landbúnaðarskrímslið. Áratugum saman hafa neytendur látið það bjóða sér einokun á afurðum kinda og kúa, ­ kjöti og mjólk.

Neytendur hafa látið skrímslið telja sér trú um, að þeir hafi hag af, að þjóðin sé sjálfri sér nóg í framleiðslu þessara afmörkuðu tegunda matvæla. Menn láta tyggja ofan í sig klisjuna um, að þetta sé öryggisatriði. Sennilega sem öryggi í þriðju heimsstyrjöldinni!

Ef aðflutningar teppast til landsins, er meiri en nógur matur til, bæði fiskur í geymslum fiskvinnslustöðva og pakkavara í geymslum heildverslana. Dilkakjöt og mjólk hafa afar afmarkað gildi við slíkar aðstæður. En neytendur nenna ekki að hugsa öryggisklisjuna til enda.

Ef neytendur hugsuðu á hagsýnan hátt og Neytendasamtökin höguðu sér í samræmi við það, væri þeim ljóst, að hátt verð á kartöflum og kjúklingum er barnaleikur í samanburði við verð á afurðum kinda og kúa. Þar mundi verzlunarfrelsi jafngilda lífskjarabyltingu.

En Íslendingar eru á of háu kaupi og hafa það of gott, ­ neyzlusauðir, sem nenna ekki að taka til hendinni við að reka landbúnaðarskrímslið alveg af höndum sér.

Jónas Kristjánsson

DV