Niður á Davíðsplan

Greinar

Misráðið er hjá forseta Íslands að segjast ætla að taka meiri þátt í stjórnmálaumræðunni á næsta kjörtímabili og taka til varna gegn ómerkilegu skítkasti forsætisráðherra og hirðar hans. Með þessu fer forsetinn niður á lága planið, sem lengi hefur einkennt forsætisráðherrann og hirð hans.

Forseti er ekki þjóðkjörinn til að verða þjarkari í pólitík, allra sízt til að bæta upp gerræði forsætisráðherra, sem orðinn er svo innhverfur, að hann framleiðir hvern atburðinn á fætur öðrum til að líkja sér við Hannes Hafstein og efna til persónudýrkunar á lífs og liðnum forsætisráðherrum.

Einkenni forsætisráðherra komu vel í ljós, þegar hann var borgarstjóri og reisti Perlu og ráðhús, sem sjást langt að og koma engum að gagni. Eftirmaður hans í ráðhúsinu lagði hins vegar skolpleiðslu, sem ekki sést, en er hornsteinn að heilsusamlegu lífi allra íbúa höfuðborgarsvæðisins.

Pirringur forsætisráðherra nærist af vanmetakennd, af því að hann hefur minna lag á að umgangast útlendinga en tveir síðustu forsetar. Hann hefur neyðst til að halla sér að skoðanabræðrum á borð við Leoníd Kuchma í Úkraínu, Anders Fogh Rasmussen í Danmörku og Silvio Berlusconi á Ítalíu.

Auðvitað verður forsetinn á sinn hátt að tefla skákina, sem forsætisráðherrann hóf. Forsetaembættið þarf að tryggja sér með formlegum bréfaskriftum milli stofnana, að ferðalög og fjarvistir framleiði ekki tækifæri handa forsætisráðherra til að hóa saman ríkisráðsfundum af minnsta tilefni.

Forsetinn getur vel gætt hagsmuna og virðingar embættisins gegn hirð forsætisráðherra, án þess að stíga niður til hennar og fara akkúrat á útmánuðum valdaskeiðs núverandi forsætisráðherra að karpa um einstök atriði, er varða stöðu forsetaembættisins og samskipti þess við framkvæmdavaldið.

Miklu betra er að bíða eftir kurteisari tíð, þegar Halldór Ásgrímsson hefur tekið við embætti forsætisráðherra. Hann kann mannasiði og mun áreiðanlega leggja sitt af mörkum til að ýta til hliðar tilgangslausum metingi milli manna, sem alls ekki geta leynt því, að þeir þola ekki hvor annan.

Yfirlýsingar forsetans um, að hann sé til í slaginn, eru til þess eins fallnar að gefa hirð forsætisráðherra tækifæri til að spinna þráðinn um, að forsetinn megi ekki vera á skíðum í útlöndum og ekki umgangast fínimenn í útlöndum og að embættið sé svo marklaust, að bezt sé að leggja það niður.

Kannski ræður forsetinn bara ekki við sig. Kannski var stökkbreytingin úr slagsmálahundi við Austurvöll í friðarhöfðingja á Bessastöðum honum um megn. Kannski er gamli Ólafur upp vakinn.

Jónas Kristjánsson

DV