Niðurlæging í Haag

Greinar

Ísland er aðili að fámennum ríkjahópi, sem kallaður er Regnhlífarhópurinn og talinn standa í vegi fyrir fjölþjóðlegu samkomulagi um verndun lofthjúps jarðar. Á loftmengunarráðstefnunni í Haag beindu umhverfisvinir spjótum sínum einkum að þessum hópi ríkja.

Fyrir hópnum fara Bandaríkin með Kanada á aðra hönd og Ástralíu á hina. Evrópusambandið vill ganga mun lengra í aðgerðum gegn loftslagsbreytingum af mannavöldum og telur þennan hóp vilja túlka Kyoto-sáttmálann aftur á bak, það er taka upp meiri mengun.

Evrópusambandið og samtök umhverfisvina saka Regnhlífarhópinn um að nota Haag-fundinn ekki til að taka þátt í að vernda lofthjúp jarðar, heldur til að búa til smugur fyrir sig, svo að þau þurfi ekki að leggja í kostnað við að taka á vandanum fyrir sitt leyti.

Ríkisstjórn Íslands kann vel við sig í þessum hópi auðugra ríkja, sem ekki vilja taka til hendinni í umhverfismálum, og þá ekki sízt Siv Friðleifsdóttir umhverfisráðherra, sem kerfisbundið úrskurðar náttúru Íslands í óhag, hvenær sem hún telur sig hafa tækifæri.

Misheppnuð barátta hennar fyrir Eyjabakkavirkjun er frægasta dæmið um þetta. Hún hefur líka heimilað frekari námavinnslu í botni Mývatns. Hún hefur hafnað umhverfismati á sjókvíaeldi á norskum laxi í Mjóafirði og mun sennilega einnig hafna slíku mati í Berufirði.

Siv er ekki eini umhverfisóvinur Íslands, aðeins sá, sem starfar með mestum fyrirgangi. Samstarf Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks er almennt hallt undir róttæka verkfræðiáráttu af ýmsu tagi. Það kemur til dæmis fram í Elliðavatnsmálinu í bæjarstjórn Kópavogs.

Sameinuð verkfræðiárátta þessara flokka krefst þess, að byggð séu fjölbýlishús við eina helztu náttúruperlu höfuðborgarsvæðisins. Þar sem Sjálfstæðisflokkurinn er einn við völd, svo sem á Seltjarnarnesi, var hins vegar í miðju kafi hætt við að spilla náttúruperlum.

Það er eins og þessir tveir flokkar magni það versta upp hvor hjá öðrum, þegar þeir starfa saman. Frumkvæði að náttúruspjöllum kemur þó oftast frá Framsóknarflokknum, sem er að þessu leyti þveröfugur við norræna systurflokka sína, sem allir eru mjög grænir.

Verkfræðiáráttu verður líka vart utan flokkanna tveggja. Þekktar eru tillögur um að hlaða landfyllingar úti í sjó víðs vegar á höfuðborgarsvæðinu, einmitt þar sem land hefur sigið alla 20. öldina og mun síga enn hraðar á 21. öldinni vegna loftslagsbreytinga.

Meðal íslenzkra kjósenda hefur orðið mikil vakning í umhverfismálum á undanförnum árum. Hæst náði hugarfarsbreytingin í vel heppnaðri aðför að ráðgerðum ríkisstjórnarinnar um Eyjabakkavirkjun. Flest bendir til, að umhverfisáhugi fari enn vaxandi meðal fólks.

Ljóst er, að þjóðin stendur ekki einhuga að baki hinu sorglega hlutverki, sem ríkisstjórnin valdi henni á loftslagsfundinum í Haag. Þjóðarviljinn fer ekki saman við ríkisstjórnarviljann og verkfræðiáráttuna. Og þeim fjölgar, sem vilja taka virkan þátt í baráttunni.

Framundan eru spennandi átakatímar. Fólk mun í auknum mæli taka pólitíska afstöðu á grunni skoðana sinna á umhverfinu, á meðferð ríkisins á ósnortnu víðerni hálendisins, á meðferð sveitarfélaga á náttúruvinjum, á stöðu þjóðarinnar í landinu almennt.

Niðurlæging Íslands í Haag getur orðið herhvöt til að efla stuðning þjóðarinnar við náttúru landsins og magna andstöðu hennar við ógæfusöm stjórnvöld.

Jónas Kristjánsson

DV