Niðurlæging Íslands í Kyoto

Greinar

Ríkisstjórnin hefur ákveðið að leggja ekkert með sér á samningaborð loftmengunarfundarins í Kyoto. Hún er ekki með nein tilboð í farangrinum. Hún hefur ákveðið, að Ísland geri ekkert í því að koma málum sínum á hreint, heldur óski hvarvetna eftir undanþágum.

Nánast öll ríki og ríkjasamtök hins vestræna heims eru með tilboð í farangrinum. Lengst ganga ríki Evrópusambandsins, sem vilja samkomulag um töluverða minnkun loftmengunar á næsta áratug. Ísland verður yfirlýstur skítapjakkur í samanburði við Evrópu.

Af skrifum og tali umhverfisráðherra í sumar mátti ætla, að ríkisstjórnin hygðist gæta sóma landsins á sviði loftmengunar. Hann vakti sérstaka athygli á, að fyrirhuguð stóriðja stæðist ekki skuldbindingar, sem Ísland hefur þegar tekið á sig í eldri samningi frá Ríó.

Núna hefur ráðherrann étið allt umhverfishjal ofan í sig. Hann er hættur að segja, að Ísland verði að standa að niðurstöðu Kyoto-fundarins til þess að sæta ekki samskiptaerfiðleikum við umheiminn. Núna er hann farinn að gera ráð fyrir, að Ísland skrifi ekki undir.

Ríkisstjórnin hefur ákveðið að gefa ekki hið minnsta eftir í stóriðjunni, heldur heimta undanþágur út á notkun endurnýjanlegra orkugjafa. Hún ætlar ekkert að gera til að minnka mengun frá fiskiskipaflotanum, heldur heimta undanþágu til að auka hana enn frekar.

Þannig hefur Ísland þá sérstöðu meðal auðþjóða heims á loftmengunarfundinum í Kyoto, að taka engan þátt í tilboðum um minnkaða mengun og heimta þess í stað undanþágur til að menga enn meira en nú er gert. Þannig niðurlægir ríkisstjórnin Íslendinga.

Umheimurinn mun ekki fallast á óskhyggju ríkisstjórnarinnar um undanþágur til aukinnar mengunar. Þvert á móti munu menn lýsa í Kyoto og eftir Kyoto yfir undrun sinni á þröngsýni Íslendinga og skammsýnu sérhagsmunapoti þeirra. Ísland fer á svörtu listana.

Þannig fer fyrir fólki, sem skortir reisn. Þannig fer fyrir fólki, sem sér ekki út fyrir nef sér. Þannig fer fyrir fólki, sem áttar sig ekki á, að framtíð fiskveiðiþjóðar felst í að taka umhverfisforustu og skapa sér orðstír sem framleiðandi hreinnar og ómengaðrar vöru.

Í staðinn hrekjumst við út í að þurfa að reyna að þvo íslenzku stimplana af matvælaframleiðslu okkar. Við neyðumst til að reyna að selja afurðirnar undir útlendum merkjum til að vekja síður athygli útlendinga á því, að varan sé frá íslenzka sóðabælinu.

Ríkisstjórn Íslands hefur ekki fremur en Íslendingar yfirleitt áttað sig á, að straumhvörf hafa orðið í umheiminum. Umhverfisvernd er ekki lengur eitthvað, sem síðskeggjaðir sérvitringar mæla með, heldur er hún orðin að opinberri stjórnarstefnu á Vesturlöndum.

Umheimurinn er farinn að átta sig á, að um líf og dauða er að tefla í umhverfismálunum. Skítapjakkar eins og Íslendingar verða teknir í bakaríið. Viðskiptaþjóðir okkar munu setja okkur stólinn fyrir dyrnar og hreinlega refsa okkur fyrir smásálarskapinn.

Íslendingar eru þjóða mest háðir utanríkisviðskiptum. Þess vegna munum við neyðast til að fylgja þeim mannasiðum, sem ákveðnir verða í útlöndum, til dæmis á fundum á borð við Kyoto. Við getum valið um að hafa sjálfir frumkvæði eða láta kúga okkur til aðgerða.

Erindisbréf fulltrúa Íslands á Kyoto-fundinn felur í sér yfirlýsingu um, að Ísland sé þrýstihópur sóðaskaparins. Það felur í sér niðurlægingu okkar allra.

Jónas Kristjánsson

DV