Ég sé eftir kýraugunum á Naustinu, þótt þau hafi ekki verið upprunaleg. Fyrir mér er þetta mannvirki Naustið, þar sem Sveinn Kjarval hannaði eftirlíkingu skips. Fyrir hálfri öld var þetta eina nothæfa veitingahúsið í borginni. Það bauð upp á körfukjúkling; bylting í matargerð, skyndibiti á lúxusverði fyrir nýríka blaðamenn. Það var fyrir daga þorramatar. Og þar var langbezti barinn í bænum. Langt er síðan þessi fortíð hvarf. Fyrir mörgum árum var byrjað að stúta innréttingu Sveins Kjarval. Brotthvarf kýraugnanna er lokapunktur langvinnrar niðurlægingar gamals húss.