Niðursetningurinn

Greinar

Ekki er sjálfgefið að pokaprestur í pólitísku poti sé sjálfsagður í stjórn Þroskahjálpar á Suðurlandi. Enda sýnir dæmið úr Þorlákshöfn, að hann kveikti ekki á perunni fyrr en löngu eftir að einelti og vafasamur aðbúnaður þroskahefts manns hafði verið umræðuefni hér í DV marga daga í senn.

Málið hafði ekki aðeins verið árum saman á borði hans sem stjórnarmanns Þroskahjálpar á Suðurlandi, heldur einnig sem sveitarstjórnarmanns í Þorlákshöfn. Ekkert hafði komið út úr þeim fínimannsleik prestsins, enda vitum við úr annarri átt, að óhefðbundin viðhorf annars manns réðu aðgerðarleysinu.

Ritstjóri Sunnlenska fréttablaðsins er einnig í stjórn Þroskahjálpar. Hann hefur í blaði sínu og fleiri fjölmiðlum greint frá viðhorfum sínum til samfélagsins og þeirra, sem ekki hafa þroska til að lifa án aðstoðar. Það er dökkur heimur, sem hann telur þroskahefta verða að sætta sig við.

Að sögn ritstjórans er sitthvað brogað við samskipti fólks í öðru hverju húsi t.d. á Selfossi og tilganglaust að fást um það. Hann telur óhjákvæmilegt, að þeir, sem eru minni máttar í lífinu, þurfi að sætta sig við að verða fyrir óþverraskap hinna, sem betur mega sín. Þetta er afar fornt sjónarmið.

Við höfum lesið um viðhorf að hætti ritstjórans í frásögnum fyrri alda af góðvilja guðhrædds fólks í garð niðursetninga. Þá var talið gustukaverk að taka niðursetninga til sín. Ekki þótti tiltökumál, þótt slíku fylgdu ýmsar kárínur, svo sem einelti. Niðursetningurinn mátti þakka fyrir að fá að lifa.

Full ástæða er til að efast um, að fólk sé meira eða minna ruglað í öðru hverju húsi á Selfossi. Mestar líkur eru á, að þar séu heilu göturnar byggðar tiltölulega heilbrigðu fólki eins og í öðrum bæjarfélögum. Samfélagið er ekki eins hart nú á tímum og það var á harmkvælatímum niðursetninganna.

Þess vegna er óhætt að telja sjónarmið ritstjórans fornleg, þótt þau séu út af fyrir sig gild og rökrétt, ef maður lítur heiminn þeim augum, sem hann gerir. Það gera raunar margir fleiri. En þeir eru ekki valdir til forustu í félagslegum stofnunum, sem byggjast á allt annarri sýn á samfélagið.

Við lifum í nútíma, sem hafnar því, að maðurinn sé í eðli sínu vondur og hafnar því, að minni máttar fólk eigi að sæta meðferð, sem þótti góð og gild í gamla daga, þegar tugir niðursetninga voru í hverjum hreppi. Félagsleg velferð í nútímanum er annað og meira en gustuk og guðsþakkarverk.

Pokapresturinn og ritstjórinn eiga því ekki heima í stjórn Þroskahjálpar á Suðurlandi. Þeir geta verið til ýmissa hluta brúklegir, en ekki sem stjórnendur velferðar á 21. öld.

Jónas Kristjánsson

DV