Peter Preston rökstyður í Guardian, að eftirleikur stríðsins gegn Írak hafi leitt í ljós, að ekkert sé að marka skýrslur, sem vestrænar leyniþjónustur framleiða fyrir stjórnvöld. Þær séu byggðar á sögusögnum og ýkjum manna, sem lifa á því að selja upplýsingar og séu alltaf í peningavandræðum. Hann rekur fleiri dæmi úr njósnasögunni um þennan vanda. Hann telur, að njósnaforstjórarnir John Scarlett og Sir Richard Dearlove beri mesta ábyrgð á frægum rangfærslum og ýkjum, sem komið hafa í ljós í njósnaskýrslum um Írak.