Nóbelsskáld talar út

Punktar

HAROLD PINTER sneri bókmenntahátíð Nóbels upp í harðskeytta árás á stríðsstefnu Bandaríkjanna og Bretlands gegn Írak og á stuðning Bandaríkjanna við nánast alla ógeðslegustu glæpamennina í stétt þjóðarleiðtoga á síðustu áratugum.

HINN 75 ÁRA gamli rithöfundur sagði í ávarpi sínu, sem flutt var við afhendingu verðlaunanna: “Glæpir Bandaríkjanna hafa verið kerfisbundnir, stöðugir, ógeðslegir, samvizkulausir, en samt hafa fáir talað um þá.”

PINTER SAGÐI, að glæpir Sovétríkjanna hefðu verið nákvæmlega skráðir, en ekki hefði enn verið gerð skýr grein fyrir glæpum Bandaríkjanna, sem ættu þó að vera veigamesti efniviður veraldarsögunnar frá stríðslokum.

SÉRSTAKA ÁHERZLU lagði Pinter á snjallt orðalag, sem Bandaríkin hafi búið til um illsku sína á alþjóðavettvangi, allt frá skipulögðum pyntingum um allan heim yfir í endurteknar árásir á fátæk ríki í þriðja heiminum.

SLÍKT ORÐALAG hafi valdið því, að venjulegir Bandaríkjamenn skilja ekki og vita jafnvel ekki um framferði Bandaríkjanna í heiminum, sem Harold Pinter kallar “ríkisrekin hryðjuverk og fyrirlitningu á alþjóðalögum”.

HAROLD PINTER sagði líka nauðsynlegt, að Tony Blair yrði dreginn fyrir Alþjóðlega stríðsglæpadómstólinn í Haag fyrir eindreginn stuðning hans við stríðsglæpastefnu Bandaríkjanna og aðild Bretlands að þeim glæpum.

SJALDAN HEFUR ávarp verðlaunahöfundar á Nóbelshátíð vakið eins mikla athygli og ávarp Pinters að þessu sinni. Ýmsir aðrir höfundar hafa vaknað upp og birt greinar um svipað efni.

NAOMI KLEIN rekur í Guardian, hvernig Bandaríkin hafi pyntað ekki bara tugþúsundir manna, heldur hundruð þúsunda manna til dauða við ýmis tækifæri, sem hún rekur. Hún er að tala um hundruð þúsunda manna. Dauðra.

Á LOTFSLAGSRÁÐSTEFNUNNI í Montreal um helgina stóðu öll ríki heimsins saman um ályktun um framvindu Kyoto-bókunar. Aðeins einn neitaði: Bandaríkin, svívirða heimsins.

DV