Nöfn og myndir

Greinar

Nafn- og myndbirtingar í fjölmiðlum eru þekkt deiluefni, sem fjölmiðlar höndla með ýmsum hætti. Fyrir öld fóru íslenzkir fjölmiðlar frjálslega með nöfn og myndir, svo sem tíðkaðist þá og síðar í erlendum fjölmiðlum. Í vestrænu samfélagi er hefðbundið, að nöfn og myndir eru hluti venjulegra frétta.

Þegar ég var ungur fyrir hálfri öld sögðu brezkir fjölmiðlar þannig frá búðarhnupli: Jón Jónsson, 31 árs, Edgeware Road 25, ógiftur og barnlaus, var í gær tekinn fastur fyrir að stela fimm skyrtum í Selfridge búðinni. Með birtist mynd af manninum í sumum blöðum. Jón Jónsson er hér tilbúið nafn.

Á þessum tíma fyrir hálfri öld voru íslenzkir fjölmiðlar komnir í séríslenzka bóndabeygju, sem takmarkaði á ýmsan hátt birtingu nafna og mynda. Fjölmiðlarnir höfðu þá um nokkurt skeið verið undir járnhæl stjórnmálaflokka, sem töldu almennt, að ekki mætti móðga neinn í fjölmiðlunum.

Það voru ekki bara stjórnmálaflokkarnir, sem töldu sér skylt að stjórna meðferð fjölmiðla á nöfnum og myndum. Dómstólar vildu líka stýra henni og gera birtinguna að ákveðnum þætti í meðferð mála í réttarkerfinu. Prestar vildu líka stýra henni og gera birtinguna háða valdi presta á sorginni.

Nú eru fjölmiðlar ekki flokksblöð og starfa hvorki í umboði dómstóla né presta. Birting nafna og mynda er ekki þáttur í réttarferli og táknar alls ekki neitt um sekt eða sakleysi. Hún er bara partur af frétt, sem felur í sér svör við: Hvað gerðist hvar, hvenær, hvernig, hvers vegna og hvað svo?

Siðareglur blaðamanna eru frá þessum tíma niðurlægingar stéttarinnar, þegar hún vildi vera memm með yfirstéttinni, hélt pressuböll með yfirstéttinni og skoðaði sjálfsmynd sína í spegli yfirstéttarinnar. Hún hafði veika sjálfsmynd og setti sér siðareglur til að njóta álits yfirstéttarinnar.

Hálf öld er liðin og komin tíma til að breyta. Ekki eru menn sammála um, hvert skuli fara. Þeir, sem höndla með peninga, vilja gera hugtak einkamála víðtækara, þannig að peningar verði eins konar lögpersónur, sem eigi að njóta friðhelgi einkalífs. Þannig vilja sumir banna birtingu á sköttum.

DV hefur stigið skrefið í aðra átt, í átt til veruleikans, eins og hann sést í erlendum fjölmiðlum og eins og hann var hér á landi, áður en fjölmiðlarnir lentu í bóndabeygju stjórnmálaflokkanna og glötuðu sjálfstæði sínu um skeið. DV birtir almennt nöfn og myndir, með sárafáum undantekningum.

Nafn- og myndbirtingar DV eru eðlilegur hluti frétta. Reynt er að svipta huliðshjálmi af leyndarmálum og veita lesendum innsýn í þjóðfélagið með því að gera það öllum gagnsætt.

Jónas Kristjánsson

DV