Nöfn og myndir af fólki

Greinar

DV birtir nöfn og myndir af fólki í fréttum. Svo einfalt er það. Í siðareglum blaðsins segir, að það birti nöfn og myndir. Þetta eru upplýsingar, sem samfélagið þarf, og DV birtir þær. Eins og fjölmiðlar gera í útlöndum og eins og þeir gerðu hér á landi, áður en hræsnismaran lagðist yfir.

Undantekningar eru á þessari siðareglu. Þær koma fram í siðaskránni, sem birt var hér í blaðinu og hægt er að sjá á heimasíðu DV. Undantekningarnar fjalla einkum um hagsmuni brotaþola, sérstaklega þolendur kynferðisbrota. Þær ná ekki til gullsmiðs við Laugaveg eða starfsmanns við Landspítala.

Raunar hefðu margir gott af að lesa siðaskrána. Þar er litið á mál frá öðrum sjónarhóli en þeim hræsnisfulla, sem hefur um nokkurra áratuga skeið verið stjórnað af Morgunblaðinu. Þar er til dæmis fjallað um samskipti við auglýsendur og við athyglissjúkt fólk, sem vill stýra fjölmiðlafrægð sinni.

Athyglisvert er, að fjölmiðlar, sem gera lítið annað en klippa út tilkynningar frá auglýsendum eða láta kranaviðtöl og drottningarviðtöl frá sér fara stríðum straumum, skuli hafa áhyggjur af siðum DV. Mættum við fá að sjá einhverjar siðareglur að baki kranablaðamennsku slíkra fjölmiðla?

Enn er hræsnin í fullum gangi. Frægðarfólk neitar hverju einasta orði af því, sem það segir í viðtölum, sem eru til á segulbandi. Kerfiskarlar froðufella af reiði, af því að þeim tekst ekki að stýra umfjöllun fjölmiðla framhjá þeirri staðreynd, að geðþótti ræður gerðum kerfiskarlanna.

Næstu mánuði verða fleiri og harðari átök milli kerfislægra sjónarmiða um góða siði í fjölmiðlum og þeirra sjónarmiða, sem koma fram í siðareglum DV. Annars vegar þjónusta fjölmiðlar vilja stórra og smárra kerfiskarla og hins vegar neitar DV slíkri þjónustu með tilvísun til siðaskrárinnar.

Þessu stríði lýkur á aðeins einn hátt. Notendur fjölmiðla fá að vita hver gerði hvað, hvar, hvenær, hvernig, hvers vegna og hvað muni svo gerast. Til þess eins eru fjölmiðlarnir.

DV