Þótt fátæktarkönnun Félagsvísindastofnunar veiti ekki gagnlegt svar við því, hvort fátækt sé að aukast eða minnka hér á landi, sýnir hún glöggt, hvaða þjóðfélagshópum er hættast við fátækt. Þannig getur hún orðið til leiðbeiningar við tilraunir til úrbóta.
Í þremur hópum er fátækt fjórum sinnum útbreiddari en að meðaltali. Þessa þrjá hópa mynda atvinnuleysingjar, námsmenn og bændur. Í tveimur hópum til viðbótar er fátækt nærri tvöfalt útbreiddari en að meðaltali, hjá ungu fólki innan við þrítugt og einstæðum foreldrum.
Staða atvinnuleysingja á þessum mælikvarða kemur ekki á óvart. Hún endurspeglar þá ríkjandi skoðun í þjóðfélaginu, að bæta beri atvinnulausu fólki tekjuleysið án þess að ganga svo langt í samhjálpinni, að það fæli fólk frá því að halda áfram að reyna að útvega sér vinnu.
Breytingar verða ekki á þessu á næstu árum. Viðhorfin til atvinnuleysis eru blendin. Ólíklegt er, að pólitísk samstaða náist um að bæta stöðu atvinnulausra, því að margir telja of lítinn mun og raunar vinnuletjandi mun vera á tekjum láglaunafólks og atvinnuleysisbótum.
Um námsmenn ríkir líka pólitískur ágreiningur. Sjálfstæðisflokkurinn er valdamesta stjórnmálaaflið og hefur beitt sér fyrir skertum hlut námsmanna. Í umræðunni um þetta hafa fulltrúar flokksins eindregið lagzt gegn tillögum til að rétta stöðu námsmanna á nýjan leik.
Námslán eru nú torsóttari en áður var, einkum þeim, sem lenda í veikindum eða öðrum vandræðum og geta ekki sótt nám af fullum þunga. Vextir og endurgreiðslur eru harðari en áður og framlengja fátækt námsmanna eftir að námi er lokið. Þetta má öllum ljóst vera.
Til að bæta stöðu atvinnuleysingja og námsmanna þarf annað hvort að verða breyting á viðhorfum öflugra stjórnmálaafla eða þá að mynduð verði valdablokk án aðildar þessara stjórnmálaafla. Á hvorugu eru líkur um þessar mundir og alls ekki á kjörtímabilinu.
Ekkert er hins vegar því til fyrirstöðu, að umræða haldi áfram um breytt viðhorf þjóðfélagsins til atvinnulausra og námsmanna og að pólitísk samstaða náist síðar um að bæta stöðu þeirra. En það verður á kostnað einhverra annarra, því að þjóðartekjur vaxa ekki á móti.
Fátækt bænda er af öðrum toga. Ríkisstyrkurinn til þeirra nemur svo háum fjárhæðum, að hann einn er langt yfir fátæktarmörkum. Hann nýtist hins vegar ekki bændum til viðurværis, af því að hann fer í rekstur, sem ekki er bara arðlaus, heldur brennir beinlínis verðmætum.
Með skipulagsbreytingum, sem stefna að samdrætti í framleiðslu landbúnaðarafurða og minni hömlum á innflutningi ódýrrar búvöru verður hægt að nýta betur bændastyrkinn þeim til viðurværis. Ekki þarf annað en að viðurkenna vonlausa samkeppnisstöðu landbúnaðar.
Um ungt fólk og einstæða foreldra ríkir ekki skarpur stjórnmálaágreiningur, svo að svigrúm ætti að vera þar til aðgerða til að bæta stöðuna. Almennt er viðurkennt, að ungu fólki er íþyngt á ýmsan hátt, til dæmis í jaðarsköttum og aukinni greiðslubyrði húsnæðislána.
Einnig virðist svo sem, að ekki sé sterk hugmyndafræðileg andstaða gegn því að aukin sé velferð einstæðra foreldra í þjóðfélagi, sem er þannig rekið, að tvær fyrirvinnur þarf til að skapa hverri fjölskyldu mannsæmandi lífskjör. Til dæmis má auka barnabætur og meðlög.
Mikilvægast er, að vel stæður meirihluti þjóðarinnar missi ekki sjónar af fátæktinni og komi í veg fyrir, að þjóðin klofni varanlega í tvær aðskildar þjóðir.
Jónas Kristjánsson
DV