Nokkur skref fram á veg.

Greinar

Hver endurbótin í peningamálum hefur rekið aðra í vetur hjá ráðuneytum viðskipta og fjármála. Matthías Á. Mathiesen hefur komið á innlánsvaxtafrelsi í bankakerfinu og rýmkað hömlur á meðferð gjaldeyris og Albert Guðmundsson hefur byrjað sölu á ríkisvíxlum.

Fleiri umbætur eru í undirbúningi. Í fjármálaráðuneytinu er verið að einfalda tollakerfið úr sextán gjaldstofnum niður í tvo, toll og vörugjald. Þar er líka verið að koma á tollkrít og endurskoða hið flókna og tímafreka fyrirkomulag við tollafgreiðslu.

Þessi atriði eru til þess fallin að auka sveigjanleika í viðskiptum og hagþróun og koma Íslandi inn í þann peningalega nútíma, sem ríkir í nágrannalöndunum. Hefur raunar lengi verið beðið eftir þessum hreytingum, ekki sízt tollkrítinni, sem ætti þegar að vera komin í framkvæmd.

Hugsanlegt er, að samkomulag náist í ríkisstjórninni um almennari álagningu söluskatts, sem mundi auðvelda innheimtu hans. Minni horfur eru á, að virðisaukaskattur leysi söluskatt af hólmi, þótt hann hafi fyrir löngu gert það annars staðar og þyrfti að koma hér.

Með hverri vikunni daprast vonir um, að ríkisstjórnin ráðist af fullum krafti gegn fjárlagagatinu með því að leggja niður útflutningsuppbætur og niðurgreiðslur og innflutningsbann, sem hafa takmarkað sveigjanleika peningakerfisins og þróunarmöguleika þjóðarbúsins.

Þannig verðum við enn um sinn eftirbátar annarra á ýmsum sviðum, þátt á öðrum sviðum höfum við náð umtalsverðum árangri í vetur. Eins og stundum áður getur ráðherrum daprast flugið, þegar þeir eru búnir að koma í framkvæmd allra brýnustu atriðunum.

Þeir Albert Guðmundsson og Matthías Á. Mathiesen hafa vítin að varast frá viðreisnarstjórninni, sem vann flest sín afrek á fyrstu mánuðum ferilsins, en koðnaði síðan niður í aðgerða- og tilgangsleysi, sem varð henni um síðir að falli, þrátt fyrir miklar vinsældir í upphafi.

En við sjáum raunar strax árangur af því, sem tekizt hefur að koma í verk í vetur. Bankar, fjárfestingarlánasjóðir og ríki hafa tekið upp samkeppni um sparifé fólks. Sjóðirnir bjóða 5,5% raunvexti, bankarnir 6% vexti umfram sparisjóðsvexti og ríkið heldur uppboð á sínum vöxtum.

Sumt af fyrirganginum verður til lítils. Megináhrifin eru þó, að fólk áttar sig betur á, að hagkvæmt getur verið að leggja peninga í sjóð fremur en að verja þeim til kaupa á vörum og þjónustu. Þannig ætti að aukast ráðstöfunarfé á peningamarkaði.

Hækkun á heimiluðum yfirfærslum ferðamanna, almenn heimild til notkunar krítarkorta í útlöndum, svo og stóraukið svigrúm til eignayfirfærsla eru lagfæringar, sem samanlagt fela í sér stórfellda veikingu átthagafjötra og styrkingu krónunnar sem alvörugjaldmiðils.

Bezt væri, ef þessar aðgerðir leiddu til eðlilegs framhalds í erlendum bankaútibúum í landinu, svo sem Albert. Guðmundsson hefur lagt til. Enn er eftirminnileg vítamínsprautan, sem Íslandsbanki var fyrir þjóðarhag í upphafi þessarar aldar.

Ef til vill verður hægt að eygja frjálsa meðferð gjaldeyris, frjálsa notkun vaxta og frjálsa verzlun með allar afurðir, svo og afnám niðurgreiðslna og útflutningsuppbóta, skatta- og tollamisvægis. Í þá átt hafa verið stigin nokkur skref að undanförnu.

Megi þau fljótt verða fleiri.

Jónas Kristjánsson.

DV