Norðlingafljót

Frá Arnarvatni að Stóra-Ási í Hálsasveit.

Arnarvatnsheiði er borgfirzki hluti stærra heiðasvæðis. Við förum um fjölbreytt landslag með útsýni til suðurs, einkum Langjökuls fjær og Eiríksjökuls nær. Stök fjöll standa upp úr, Bláfell á Stórasandi, Krákur við Langjökul og Strúturinn ofan við Kalmanstungu. Í Álftakróki er fjallaskáli í gróðursælu umhverfi. Að fornu héldu sig þar oft sekir menn. Hellismannasaga segir frá fyrirsát í Vopnalág. Hún er uppþornaður og algróinn farvegur Norðlingafljóts, skemmdur af völdum torfæruhjóla. Surtshellir er þekktasti hellir landsins. Í Surtshelli lét Sturla Sighvatsson 1236 skera í augu Órækju Snorrasonar og skera undan honum annað eistað. Fleiri þekktir hellar eru í Hallmundarhrauni. Jeppafær er öll leiðin, sem hér er lýst að neðan.

Förum frá skálanum Hnúabaki á Arnarvatnsheiði í 540 metra hæð og höldum vestan vatnsins og austan við Svartarhæð til suðurs að nyrðri slóðinni yfir Arnarvatnsheiði. Förum yfir þá slóð og áfram til suðurs Arnarvatnshæðir að syðri slóðinni yfir heiðina. Beygjum til suðvesturs eftir þeirri slóð og fylgjum henni áfram suðvestur um Mordísarhæð, förum suðaustan við Mordísarvatn að skálanum í Álftakróki, í 480 metra hæð. Frá skálanum fylgjum við slóðinni áfram til suðvesturs, með vesturströnd Núpavatns og síðan að þægilegu Helluvaði á Norðlingafljóti. Við förum yfir ána og síðan áfram suðvestur um grýttan Þorvaldsháls, stuttan kafla meðfram Norðlingafljóti, um Fremri-Fugleyrar og Vopnalág, síðan áfram að Surtshelli. Næst förum við áfram suðvestur milli Strútsins í suðaustri og Fljótstunguháls í norðvestri. Fylgjum vegi upp og suður Skeljalág og vestur um Skeljaháls að þjóðvegi 518, sem við förum til vesturs. Yfir Norðlingafljót á brú, og síðan með vegi norðaustur að Fljótstungu. Næst suðvestur með Kolsstaðahnjúkum. Áfram veginn að Bjarnastöðum, þar sem við beygjum til suðurs eftir þjóðvegi 523 yfir brú á Hvítá, heim að Stóra-Ási.

53,8 km
Borgarfjörður-Mýrar

Skálar:
Hnúabak: N64 57.644 W20 21.907.
Álftakrókur: N64 53.274 W20 26.388.

Nálægir ferlar: Arnarvatnsheiði, Suðurmannasandfell, Fljótsdrög, Aðalbólsheiði, Hvítársíða.
Nálægar leiðir: Núpdælagötur, Tvídægra, Strúturinn, Húsafell.

Skrásetjari: Steingrímur Kristinsson
Heimild: Jónas Kristjánsson og Steingrímur Kristinsson