Eftir margvíslegar vegavillur víða um heim íslams í Asíu er Nato aftur farið að snúa sér að markmiðinu, vörnum við Norður-Atlantshafið. Toppfundur bandalagsins í Póllandi snerist að mestu um Rússland, sinn gamla óvin úr blessaða stríðinu kalda. Varnir Úkraínu voru í fókus, en líka löndin í norðri. Svíar sendu Löfven forsætisráðherra og Finnar sendu Niinistö forseta. Noregur hafði áður sent út neyðarkall vegna meiri umsvifa Rússlands í Norðurhöfum. Aftur er rætt um aðild Finnlands og Svíþjóðar að Nató. Það grefur undan fjölþjóða samstarfi um norðrið með aðild Rússlands. Okkar afskekkti heimshluti er orðinn miðlægari og ófriðlegri.