Allar líkur benda til, að Noregur hafi svikið Ísland í Jan Mayen málinu. Hvert einstakt atriði er ekki fullt sönnunargagn, en sameiginlega leiða líkurnar til þeirrar óhjákvæmilegu niðurstöðu, að norsk stjórnvöld hafi svikið samkomulagið um Jan Mayen.
Í fyrsta lagi skýrðu norskir fjölmiðlar frá því fyrr í sumar, að norsk og dönsk stjórnvöld hefðu samið um veiðiheimildir fyrir Dani á Jan Mayen svæðinu. Var skrifað um þetta eins og hvert annað samkomulag, sem ríkisstjórnir gera um ýmis hagsmunamál.
Þegar Íslendingar fóru að malda í móinn og benda á, að samkvæmt samningi Íslendinga og Norðmanna gætu Norðmenn ekki einhliða gefið slík leyfi, sneru norsk stjórnvöld við blaðinu og héldu því blákalt fram, að alls ekki neitt samkomulag hefði verið gert við Dani.
Í öðru lagi hefur Árni Gíslason, útgerðarmaður í Danmörku, sagt, að Norðmenn og Danir hafi gert þegjandi samkomulag um svokallað gráa svæði, það er svæðið frá miðlínu milli Grænlands og Jan Mayen austur að 200 mílna mörkum frá Grænlandi. Og þar er einmitt veitt núna.
Í þriðja lagi er komið í ljós, að norsk varðskip á þessum slóðum hafa fyrirmæli um að vera norskum skipum til aðstoðar, en að skipta sér ekki af veiðum erlendra skipa. Þar með er ljóst, að koma norskra varðskipa á miðin á ekki að þjóna neinni landhelgisgæzlu.
Vegna þeirra staðreynda, sem hér hafa verið raktar, er óhætt að fullyrða, að einkar ógeðfellt er svar norskra stjórnvalda við fyrstu mótmælum íslenzkra stjórnvalda. Líta má á það sem eins konar Júdasarkoss. Innihald þess er fjarri staðreyndum.
Í svarinu fullyrtu norsk stjórnvöld, að ekki hafi verið gert neitt samkomulag við dönsk og að norsk varðskip yrðu send á miðin til eftirlits. Með bréfi þessu blekktu þau utanríkisráðherra okkar, sem lét hafa eftir sér í Morgunblaðinu, að svarið væri jákvætt.
Nú er komið í ljós, að bréf norsku stjórnarinnar var að mestu leyti hrein lygi. Íslenzka utanríkisráðuneytið hefur sent viðeigandi mótmæli til Noregs og Danmerkur, sem svarað verður með meiri lygi. Og vandi okkar nú er að velja þessu viðbrögð við hæfi.
Stungið hefur verið upp á, að Ísland sendi varðskip á þessi mið til að halda uppi gæzlu umsaminna hagsmuna okkar. Þau gætu hrakið dönsku og færeysku skipin vestur yfir, en um leið magnað ágreininginn. Þessa hættulegu leið má fara, en að loknu vel athuguðu máli.
Færeyjum getum við auðveldlega svarað með því að lýsa yfir brottfalli veiðiheimildanna, sem þær hafa í fiskveiðilögsögu Íslands. Vegna framgöngu Færeyinga í málinu eiga þeir ekki annað skilið. Hins vegar eigum við fátt vopna eða skiptimyntar gegn Dönum og Efnahagsbandalaginu.
Við hljótum að telja hættu á ferðum, þegar Efnahagsbandalagið hefur einhliða lýst yfir 105 þúsund tonna laxakvóta handa sér á þessu svæði. Hyggst bandalagið til dæmis framselja þennan ímyndaða kvóta Sovétríkjunum gegn gjaldi eða í skiptum fyrir annað?
Við munum halda því stíft fram, að Noregur beri einn tjónið af þegjandi samkomulagi við aðra aðila, enda hafa norsk stjórnvöld ekki beitt varðskipum sínum. En óneitanlega er hart að sæta svikum nágranna við gerða samninga og þar á ofan óheiðarlegum bréfum þeirra.
Jónas Kristjánsson.
DV