Norræna viðskiptabannið á Suður-Afríku er okkur þægilegt í framkvæmd. Við seljum sama sem ekkert þangað og allra sízt tölvubúnað, sem er helzta bannvaran. Við kaupum þaðan lítils háttar af appelsínum, sem eru ekki nógu virðulegar til að komast á bannlistann.
Okkur er ekki að skapi stjórnarfar Búa í Suður-Afríku. Ríkisstjórn þeirra sigar lögreglunni á svarta borgara landsins og hernum á nágrannaríkin. Ríkisstjórn Suður-Afríku er raunar skólabókardæmi um hryðjuverkastjórn, sem við hljótum hjartanlega að fyrirlíta.
Úr því að við erum farin að skrifa undir svarta lista yfir listamenn og tölvubúnað, er orðið tímabært að taka upp flokkun á erlendum ríkisstjórnum í hreinar og óhreinar. Engin sérstök ástæða er til að einblína á Suður-Afríku. Stjórnarfarið þar er bara þetta venjulega.
Við kaupum olíu og bíla af Sovétríkjunum og seljum þangað fiskafurðir á borð við saltsíld. Sölumenn okkar og ráðuneytisstjóri viðskiptamála hafa verið staðnir að því að væla út óbeinan stuðning við skoðun ríkisstjórnar Sovétríkjanna á því, hvernig hún megi brjóta Helsinkisamkomulagið.
Ríkisstjórn Sovétríkjanna stundar hryðjuverk á borgurum landsins. Hún lokar þá inni á geðveikrahælum og gefur þeim inn eitur. Hún sendir þá í útlegð, þar sem ekkert fréttist af þeim. Hún neitar þeim um læknishjálp. Og hún gefur þeim ekki leyfi til að flytjast úr landi.
Í hryðjuverkum innanlands er ríkisstjórn Sovétríkjanna mjög svo sambærileg við ríkisstjórn Suður-Afríku. Hins vegar er hin fyrrnefnda miklum mun afkastameiri í ofbeldi gagnvart nágrannaríkjunum. Styrjöldin í Afganistan er hræðilegri en önnur hryðjuverk nútímans.
Þegar við tökum upp norrænt viðskiptabann á listamenn og tölvur gagnvart Suður-Afríku, er tímabært að gera það einnig gagnvart Sovétríkjunum og hverju einasta leppríki þeirra. Við verðum að hafa samræmi í tilraunum okkar til að hafa vit fyrir erlendum ríkisstjórnum.
Og það eru fleiri ríkisstjórnir en Suður-Afríku og Sovétríkjanna, sem víkja af hinum þrönga vegi dyggðanna. Þær eru raunar rúmlega hundrað í heiminum, er stunda hryðjuverk, sem eru svipuð eða verri en hin suðurafrísku. Þar á meðal eru nærri allar stjórnir svörtu Afríku.
Ef við ætlum að vera sjálfum okkur samkvæm, þurfum við að setja rúmlega hundrað ríkisstjórnir í viðskiptabaun. Við þurfum að búa til svarta lista yfir tölvubúnað og listamenn, sem fara þangað. Við eigum á hættu að óhreinka okkur af fleiru en Suður-Afríku og Sovétríkjunum.
Í rúmlega hundrað löndum jarðar sitja ríkisstjórnir, sem hafa ekkert umboð frá borgurunum. Þær fangelsa menn án vestrænna laga, misþyrma þeim og drepa þá. Þær stunda hryðjuverk gegn erlendum ríkjum. Meira að segja stjórn Bandaríkjanna stundar hið síðarnefnda.
Hryðjuverk stjórnar Bandaríkjanna í Nicaragua gætu hæglega komið henni á hinn svarta lista okkar yfir tölvubúnað og listamenn. Við gætum að minnsta kosti meinað Bandaríkjamönnum að kaupa af okkur afurðir hvala. Það væri álíka hagkvæmt og norræna viðskiptabannið.
Mikilvægast væri þó að nota norræna viðskiptabannið á Suður-Afríku til að skoða hug okkar um stöðu okkar sem aftaníossa norræns samstarfs. Við þurfum að spyrja okkur, hvort við séum skyldug til að éta allt upp eftir hjartahreinum frændþjóðum á hjara veraldar.
Jónas Kristjánsson.
DV