Norræni útkjálkinn

Greinar

Ein stærsta fréttastofa heims er Reuter, sem meðal annars er allsráðandi í erlendum fréttum á Íslandi, enda gamalkunn af vönduðum fréttum. Hún hafði í gær ekki enn minnzt einu orði á miðvikudagsfréttina, sem sett hefur pólitíska umræðu í Noregi á annan endann.

Reuter telur ekki taka því að dreifa þeirri frétt um heiminn, að á miðvikudaginn var dreift skýrslu rannsóknarnefndar norska stórþingsins, þar sem fram kemur, að leyniþjónustan og Verkamannaflokkurinn unnu saman að persónunjósnum um tæplega 50.000 manns.

Þetta jafngildir því, að ímynduð leyniþjónusta á Íslandi og Sjálfstæðisflokkurinn ynnu saman að njósnum um 2.500 Íslendinga frá 12 ára aldri og upp að níræðu. Símtöl þessa fólks væru hleruð samkvæmt skrá, sem samin hefði verið af flokksstarfsmönnum í Valhöll.

Auðvitað fara menn hamförum í Noregi út af þessum uppljóstrunum, sem hljóta að vekja grunsemdir um, að framkvæmdastjóri Verkamannaflokksins á þessum tíma, Haakon Lie, þekktur stjórnmálamaður langt út fyrir landsteina, hafi tæpast verið með öllum mjalla.

Reuter telur líklega mál þetta vera storm í vatnsglasi, ekki vegna þess að það sé efnislega ómerkilegt, heldur vegna þess að Noregur sé hálfgert vatnsglas, sem komi umheiminum lítið við. Hin æpandi þögn Reuters segir sögu um hvarf Norðurlanda úr alþjóðlegri umræðu.

Fyrir nokkrum áratugum var Norðurlanda oft getið í þeim fjölmiðlum, sem mestu ráða um alþjóðlega umræðu. Þau voru að ýmsu leyti talin vera þjóðfélög til fyrirmyndar, byggð forríkum þjóðum, sem tekizt hefði að sameina markaðshyggju og velferðarstefnu.

Þótt heldur hafi dalað geta Norðurlandaþjóða til að standa undir villtustu útgáfum velferðarstefnunnar, eru þær enn með ríkustu þjóðum heims. Ekkert hefur komið fram, sem bendir til, að þjóðfélagsgerðin sem slík hafi mistekizt, þótt henni hafi slegið í öfgar á köflum.

Umheimurinn hefur hins vegar misst áhugann á þessu. Hann lítur á Norðurlönd sem hálfgert elliheimili auðugs fólks, þar sem tíminn líði án þess að neitt gerist í raun og veru. Eða eins og stöðuvatn, þar sem enginn vindur er til að gára atburðalausan hversdagsleika.

Ef Norðurlanda er getið, er það helzt í gríni. Eitt alvörugefnasta blað í heimi, Economist, spottaðist fyrir nokkrum árum að norrænu samstarfi, sem blaðið sagði einkennast af sífelldum þeytingi stjórnmála- og embættismanna á samnorræna fundi, sem ekkert kæmi út úr.

Blaðið sagði, að í norrænu samstarfi væri unnið að 2000 verkefnum fyrir alls 7,7 milljarða króna, þar sem fjallað væri um allt niður í varðveizlu leðurhúsgagna. Þetta kæmi helzt flugfélaginu SAS að gagni, því að dýra farrýmið væri fullt af norrænum embættismönnum.

Norðurlönd hefðu hins vegar ekki getað lækkað tolla sín í milli fyrr en Austurríkismenn og Svisslendingar komu til skjalanna í Fríverzlunarsamtökunum. Þannig séu Norðurlönd ófær um að vinna að framtíðarhagsmunum sínum, en þeim mun iðnari við samnorrænar veizlur.

Síðan Economist birti þetta hafa Svíar og Finnar gengið í Evrópusambandið og mæna með Dönum í átt til Brussel. Þessi þrjú ríki hafa misst áhuga á norrænu samstarfi, þótt þau fari til málamynda gegnum formsatriði þess. Norænt samstarf er í andaslitrunum.

Botninn fannst, þegar stormur í vatnsglasi Noregs, eitt stærsta persónunjósnamál Vesturlanda, varð ekki tilefni neðanmálsgreina í alþjóðlegum fjölmiðlum.

Jónas Kristjánsson

DV