Norsk Hydro hefur framkvæmdastjórann Eyvind Reiten til að segja, að fyrirtækið hætti ekki við álver á Reyðarfirði, þótt frekari umhverfisathugana verði krafizt, og upplýsingafulltrúann Thomas Knutzen til að segja, að slík frestun málsins gerbreyti forsendum þess.
Norsk Hydro hefur framkvæmdastjórann Eyvind Reiten til að segja, að síðari stækkun álversins á Reyðarfirði sé forsenda framkvæmda við fyrsta áfanga þess, og upplýsingafulltrúann Thomas Knutzen til að segja, að fyrirtækið hafi engar tryggingar fyrir slíkri stækkun.
Norsk Hydro leikur skipulega tveim skjöldum í tilraunum sínum til að fá Íslendinga til að reisa álver á Reyðarfirði, enda segir Knutzen, að Ísland sé eina Evrópulandið, sem geti hýst 480 þúsund tonna álver. Á íslenzku þýðir þetta, að Ísland eitt vilji slíkt álver.
Framlag Norsk Hydro til álversins fyrir austan á fyrst og fremst að vera þekking og reynsla. Innan við 10% af heildarhlutafénu verður í peningum. Norsk Hydro ætlar einnig að leggja álverinu til hráál til úrvinnslu og selja umheiminum álið, sem frá því kemur.
Norsk Hydro hyggst taka sitt á þurru sem eigandi alls framleiðsluferilsins frá báxítinu til fullunninna afurða, svo og sem eigandi þekkingar og reynslu í áliðnaði. Afkoma fyrirtækis á Reyðarfirði, sem Norsk Hydro á að litlu leyti, skiptir litlu máli í heildarsamhenginu.
Íslenzkir lífeyrissjóðir og þar með gamlingjar framtíðarinnar á Íslandi eiga að taka áhættuna af því, hvort sjálft álverið verði rekið með samkeppnishæfum hagnaði. Landsvirkjun og þar með raforkunotendur framtíðarinnar á Íslandi eiga að taka sams konar áhættu.
Álver, sem kaupir þekkingu og reynslu af Norsk Hydro, kaupir hráál af Norsk Hydro og selur Norsk Hydro álstykki er ekki annað en þræll Norsk Hydro, þótt keðjubréfastjórar íslenzkra fjárfestingarbanka reyni að telja fjárfestum trú um þolanlega afkomu.
Norsk Hydro er að misnota Ísland með blekkingum og hafa fé af vitleysingum. Þetta gerir fyrirtækið sem norskt ríkisfyrirtæki í fullu samráði við norsk stjórnvöld, sem einnig leika tveim skjöldum í framgöngu sinni gagnvart Íslandi og í slíkum málum almennt.
Norsk stjórnvöld kosta útgáfu Arctic Bulletin, tímarits World Wildlife Fund, til að kaupa sér frið í umhverfismálum. Stjórnendur Norsk Hydro halda fundi með trúgjörnum fulltrúum sömu samtaka til að segja þeim það, sem þeir vilja heyra um álverið á Reyðarfirði.
Með margvíslegum tvískinnungi af slíku tagi drepa norsk stjórnvöld og Norsk Hydro á dreif andstöðu umheimsins við fyrirhugað álver á Reyðarfirði og hvika hvergi frá fyrri ákvörðunum. Markmiðið er að eignast viðskiptaþræl, sem á sér engrar undankomu auðið.
Það er rétt sem Thomas Knutzen segir. Annað eins álver verður hvergi reist í Evrópu. Það stafar af, að þar vilja engir slíkt álver. Svisslendingar hafa losnað við öll sín álver. Þjóðverjar eru að losa sig við sín, þar á meðal losnuðu þeir við eitt gamalt og lélegt til Íslands.
Fyrir milligöngu íslenzkra stjórnmálamanna eiga íslenzkir ellilaunamenn og raforkunotendur að verða bjálfarnir fyrir vagni Norsk Hydro og norskra stjórnvalda. Með því að leika tveim skjöldum hefur þessum aðilum tekizt að sigla málinu framhjá ýmsum skerjum.
Þótt yfirmönnum Norsk Hydro takist með blekkingum og tvískinnungi að koma sér upp viðskiptaþræl á Íslandi tekst þeim ekki að fela staðreyndir málsins.
Jónas Kristjánsson
DV