Norskt sjórán

Greinar

Íslendingar hafa sögulegan rétt til veiða við Svalbarða og í Barentshafi, ef slíkur réttur er á annað borð viðurkenndur. Þeir hafa veitt þar þorsk allt frá árinu 1930, síld frá 1967 og loðnu frá 1975. Norsk stjórnvöld fara með rangt mál, er þau segja Íslendinga nýja á miðunum.

Norðmenn eiga ekki Svalbarða og hafa alls ekki sama vald yfir honum og eigin landi. Um Svalbarða gildir samningur frá árinu 1920. Rúmlega fjörutíu ríki eru aðilar að samningnum og þar á meðal Ísland. Norsk lög og norskar reglugerðir gilda ekki sjálfkrafa um Svalbarða.

Samkvæmt annarri grein samningsins njóta allir þegnar og skip aðildarríkjanna sama réttar til veiða í landhelgi Svalbarða. Norskar verndaraðgerðir skulu ávallt eiga jafnt við um alla þegna samningsaðilanna, “án nokkurra undantekninga, forréttinda eða ívilnana”.

Ekkert ríki Svalbarðasamningsins, að Finnlandi undanskildu, hefur viðurkennt sjálftöku Noregs á fiskveiðilögsögu, þar á meðal úthlutun veiðikvóta að norskum geðþótta til að hygla eigin sjómönnum. Mörg ríkjanna og þar á meðal Ísland hafa harðlega mótmælt þessu.

Ofbeldi norskra stjórnvalda í sumar á miðunum við Svalbarða er hreint sjórán, sem brýtur gegn hefðarrétti og gegn samningi, sem Noregur hefur gert um svæðið. Þessi árásarhneigð minnir raunar sterklega á offors Norðmanna gegn Íslandi í Jan Mayen fiskveiðideilunni.

Þessu ofbeldi fylgir ótrúlegur munnsöfnuður ráðherra í ríkisstjórn norska Verkamannaflokksins, þar á meðal gribbugangur í sjálfum forsætisráðherranum. Íslendingar telja ekki allt ömmu sína í þessum efnum, en verða að játa sig gersigraða í óhefluðu ráðherraorðbragði.

Munnsöfnuður ráðherranna er sagður ætlaður til notkunar í norðurhéruðum Noregs, þar sem sjávarútvegur er eins konar félagsmálapakki, sem á að koma í veg fyrir, að fólk flykkist suður til Osló. Einnkennilegir mega þeir kjósendur vera, sem finnst munnsöfnuðurinn ljúfur.

Jafnframt er sagt, að norskir ráðamenn verði viðmælandi í nóvember, þegar lokið er þjóðaratkvæðagreiðslu um aðild ríkisins að Evrópusambandinu. Með gribbugangi eigi að draga fjöður yfir þá staðreynd, að Noregur hefur gert lélegan fiskveiðisamning við sambandið.

Stundum finnst okkur íslenzkir stjórnmálamenn vera of ódýrir í orði og á borði. Það bliknar þó í samanburði við ráðamenn Noregs, sem láta skjóta föstum skotum á skip; láta taka skip með ofbeldi; og setja lög og reglugerðir, sem brjóta jafnræðisreglu Svalbarðasamningsins.

Ef allt þetta framferði ríkisstjórnar Gro Harlem Brundtland er aðeins þáttur í grófri kosningabaráttu í Norður-Noregi, er fundinn í Noregi pólitískur botn, sem ekki hefur fundizt til dæmis á Íslandi, þótt sitthvað kunni að vera upp á íslenzka stjórnmálamenn að klaga.

Samhliða atgangi norskra stjórnvalda hafa þau staðfastlega neitað að setjast að samningaborði. Endurteknar tilraunir til að draga þau til samninga hafa engan árangur borið. Óhjákvæmilegt virðist því, að Ísland fari dómstólaleiðina í málinu, er hin leiðin virðist brostin.

Um leið þurfa íslenzk stjórnvöld að styðja betur við bak sjómanna sinna, til dæmis með því að taka þátt í sameiginlegri baktryggingu fyrir skaða, sem sjómenn og útgerðarfélög kunna að verða fyrir vegna töku skipa, annars ofbeldis og lögleysu af hálfu norska ríkisins.

Leiðinlegt er að þurfa að standa í útistöðum við nágranna. En það er líka leiðinlegt að láta þá valta yfir sig. Því stöndum við fast gegn norskri frekju og yfirgangi.

Jónas Kristjánsson

DV